Það er sérkennilegur málflutningur að Íslendingar séu fyrirmynd annarra þjóða hvað varðar efnahagsbata. Þetta má lesa á vef BBC og er haft eftir forseta Íslands.
Nýlega er komið fram að skuldir hvíla á meira en helmingi húsnæðis sem telst vera í eigu einstaklinga. Verðbólga er aftur komin í gang, skuldabyrði þyngist á nýjan leik. Lítið verður úr skuldaleiðréttingunum sem lánastofnanir hafa verið neyddar til að grípa til. Íslenska krónan á þar stóran þátt, hún er veldur verðbólgu og óstöðugleika. Lífskjörin hafa versnað til muna, það er brostinn á stórfelldur landflótti, atvinnuleysi er útbreitt. Fjárfestingar eru í algjöru lágmarki. Bankarnir lána helst ekki fé, þeir eru varla annað en innheimtustofnanir.
Laun voru hækkuð smávegis í vor, nú er öll sú hækkun að brenna upp. Fjárlagahalli er meiri en gert var ráð fyrir – menn bíða með ugg í brjósti eftir því hversu mikinn niðurskurð og skattahækkanir næstu fjárlög hafi í för með sér.
Jú, Ólafur Ragnar Grímsson getur stært sig af atkvæðagreiðslunum um Icesave – en reyndar bendir flest til þess að alltaf hafi verið nægar eignir í þrotabúi Landsbankans til að standa skil á þeirri skuld.
Þar fyrir utan hefur milljörðum á milljarða ofan verið dælt í gjaldþrota fjármálastofnanir auk þess sem ríkið tók ábyrgð á öllu sparifé landsmanna. Líka fé þeirra sem eiga tugi eða hundruð milljóna.
Hrunverjar eiga ennþá stórfyrirtæki sem almenningur virðist versla við með glöðu geði. Það er eiginlega ráðgáta.
En Íslendingar hafa fengið að gjalda fyrir hrunið með stökkbreyttum lánum, hrundum gjaldmiðli, verðbólgu, skattahækkunum, kjaraskerðingu, niðurskurði og atvinnuleysi eins og fyrr segir – og það er eiginlega móðgun við almenning að halda því fram að við séum að fara eitthvað sérstaklega vel út úr þessu. En þannig láta sjálfhælnir stjórnmálamenn helst þegar þeir eru að tala við erlenda fjölmiðla.
Jú, krónan veldur því að við fáum meira fyrir útflutning okkar – og það er eitthvað ódýrara fyrir ferðamenn að koma til landsins en áður. Verðhækkanir hafa þó vegið ansi harkalega upp á móti því. Hótelgisting er mjög dýr á Íslandi miðað við gæði, bílaleigubílar eru óheyrilega dýrir og maturinn er langt í frá ódýr heldur.
Það koma um 600 þúsund ferðamenn til Íslands á ári, gæti orðið ein milljón einhvern tíma í framtíðinni. Til Noregs komu 6,6 milljónir ferðamanna í fyrra, þá komu um 19 milljón ferðamenn til Grikklands en 80 milljónir til Frakklands.