Hagfræðin er gullfiskur. Eða að minnsta kosti hinar viðteknu hugmyndir sem ríkja hverju sinni í hagfræðinni.
Árum saman las maður að Þýskaland væri til vændræða í Evrópu – það væri jafnvel hinn „sjúki maður“ í álfunni – vegna þess að Þjóðverjar væru ekki nógu góðir neytendur, þeir eyddu ekki peningum og tækju ekki lán.
Það var sagt að best væri ef Þjóðverjar færu að líkjast Bretum meira. Bretar eru kaupóðir, steypa sér í skuldir og versla út á krít.
Á Íslandi, sem var eins konar paradís neyslu og ofurskuldsetningar, eru húsnæðisskuldir nú komnar yfir helming af verðmæti fasteigna sem eru í eigu einstaklinga. Það er frekar eins og martröð.
Ég er staddur í Þýskalandi og enn er sjaldgæft að sjá fólk veifa kreditkortum.
Frakkar áttu líka að fara að líkjast Bretum og taka upp blairisma. Franskir fjölmiðlar voru í angist vegna þessa árum saman. Sarkozy boðaði blairisma þegar hann var kosinn – en svo kom efnahagskreppa og hann sneri við blaðinu. Frakkar halda því enn í sín stóru ríkisfyrirtæki. Og þeir hafa besta heilbrigðiskerfi í heimi og bestu járnbrautirnar.
Og nú eru það Þjóðverjar sem standa uppi sem það land í Evrópu þar sem efnahagurinn er í bestu lagi. Þjóðverjar framleiða ennþá vörur sem eru eftirsóttar út um alla veröld. Að vísu er í gangi einhver misskilningur um hversu mikið Þjóðverjar greiða vegna evrunnar – það eru smáaurar miðað við allan þann markað sem Þjóðverjar hafa í Evrópu fyrir varning sinn.
Við lifðum nokkuð langt skeið hagfræðirétttrúnaðar. Margir hafa bilað í trúnni. Á Evrópuvaktinni, sem er vefrit gamalla hægri manna, má til dæmis lesa þennan pistil þar sem er spurt hvort nokkuð vit sé í einkavæðingu.