Ég hef verið fylgjandi því að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýri. Tel að hægt verði að finna lausn á málinu sem allir gætu sætt sig við. Þróun flugvélakosts er á átt til styttri flugbrauta og með bættu vegakerfi er miklu meira ekið á staði þangað sem áður var flogið.
En þetta er seinni tima mál. Það er ljóst að ekkert verður gert í þessu í því efnahagsástandi sem nú ríkir. Það er ekki sérstök vöntun á íbúða- eða atvinnuhúsnæði í Reykjavík – bæði borg og ríki eru á kúpunni.
Því er skrítið að Ögmundur Jónasson sé að efna til óvinafagnaðar – ekki síst innan síns eigin flokks – með því að halda á lofti þjóðaratkvæðagreiðslu um flugvöllinn.
Og það á sama tíma og stjórnlagaráð er að störfum við að móta reglur um þjóðaratkvæðagreiðslur.
Fyrir utan að formlega séð er þetta skipulagsmál innan Reykjavíkur – þótt vissulega komi það fleirum við.
En það er með hann Ögmund, það er stundum eins og honum fari að leiðast og þurfi að búa til einhver læti í kringum sig.
Þjóðin þarf að fást við ótalmörg erfið álitamál þessi misserin – það væri algjörlega að æra óstöðugan að bæta þessu við. Nógu er nú samfélagsumræðan herfilega erfið.