Gamall skólabróðir minn, Árni Hallgrímsson, skrifaði þessi minningarorð um Sævar Ciecielski á Fésbókarsíðu sína. Ég held að sé óhætt að fullyrða að þetta sé einstaklega góður og lýsandi texti – tek mér það bessaleyfi að birta hann:
— — —
Í minningu útlaga
„Ég skal segja þér það,“ heyrðist sagt rámri og hásri rödd ofan úr tré við göngustíg hjá vatninu í „fríríkinu“ Kristjaníu í síðasta mánuði þegar við nokkur forvitin áttum leið þar í gegn í fallegu köbenhávnsku sumarveðri.
Ég var frekar neikvæður á þessa heimsókn en Krummi svili minn og Unnur konan mín voru mjög áfram um að kíkja þarna inn en ég hafði aldrei komið inn fyrir hliðið – kannski af ótta við að ég kæmi aldrei út aftur. Ég hafði flest á hornum mér þarna á þessum voðalega stað, vildi út strax en þau vildu að ég skoðaði mig um og það með aðeins víðsýnni huga.
Vart hafði ég lokið við að slá fram í hrokafullum og hryssingslegum tón spurningunni „Hvað er fólk eiginlega að sækja hingað?“ þegar röddin ráma og hása barst ofan úr trénu. Okkur varð litið á tréð og þar sást móta fyrir stiga, nokkrum spýtum klastrað saman og tuskubútum. Það heyrðust skruðningar, einhver var að vakna til lífsins þarna uppi. Á milli greina og spýtna birtust þær óhreinustu tær sem við höfðum lengi augum litið, og ekki nóg með það, þær virtust hafa þolað meiri kulda og vosbúð en hollt getur talist, það sást svo ekki varð um villst. Næst sáust sótsvartar hendur taka heldur fumlega um trjágrein og loks birtist andlit, markerað af harðri vist í helvíti að best varð séð. Skarpt augnaráð, nef afmyndað, einhvern veginn eins og út um allt efra andlitið, tanngarður keimlíkur íslenskri vogskorinni strönd, svartir hamrar og eyðivíkur. Þegar veran var staðin upp sást að þetta var karlmaður eigi hár vexti.
Það leyndi sér ekki hver maðurinn var, Sævar Ciesielski. „Vinur minn býr hér, ég er að bíða eftir honum,“ útskýrði maðurinn veru sína á þessum sérstaka stað.
Það var ekki laust við að okkur væri brugðið, þessi uppákoma var einhvern veginn svo óraunveruleg og margt í henni sem minnti á atriði úr Íslandsklukkunni. Við Krummi og Sævar tókum tal saman en Katrínu dóttur minni stóð ógn af þessum útigangsmanni, sem kom illa til reika ofan úr tré, og vildi halda förinni áfram með móður sinni. Hún var m.a. búin að sjá danskar portkonur og drukkna Grænlendinga mígandi og að slást og vildi ekki meira af slíku.
„Ég skal segja ykkur það að í Danmörk er mun betra samfélag en á Íslandi,“ sagði Sævar þegar við vorum búnir að kynna okkur hver fyrir öðrum. Kynningin fór reyndar þannig fram að hann sagði okkur í óspurðum fréttum hver hann væri og var eins og hann byggist við að við myndum yfirgefa hann þegar hann nefndi nafn sitt. Hann spurði okkur aldrei að nafni – enda skipti það engu máli, það nægði að við værum Íslendingar.
„Ég var gerður útlægur frá Íslandi,“ sagði Sævar. Hann stjórnaði samtalinu enda á heimaslóðum, við gestkomandi. „Við vitum það, Sævar,“ var mitt auma rammíslenska svar.
„Ísland er að sökkva,“ sagði ég svona til að reyna að hressa manninn við. Sævar virtist fylgjast eitthvað með fréttum því hann var vel með á nótunum þegar talið barst að heimahögunum. „Ísland er sokkið, vinur,“ svaraði hann um hæl. Sennilega var það löngu sokkið í hans huga.
„Sævar, heldurðu að þú móðgist eitthvað ef ég sting að þér lítilræði?“ var spurt þegar ljóst var orðið að hann var tímabundinn og átti von á vininum innan tíðar. „Nei, ætli það nokkuð,“ var svarað í tóni sem ég mun ekki gleyma í bráð – hæðni, tregi, vonleysi.
Við tókumst í hendur og kvöddumst að eilífu.