Ég kynntist Sævari Ciecielski eftir að hann slapp úr fangelsi á níunda áratugnum.
Ég man að rétt eftir það sátum við Illugi á Gauknum með Sævari og ónefndum alþingismanni.
Mér fannst það skemmtilegt. Alþingismaðurinn, við drykkfelldu ungu blaðamennirnir og frægasti sakamaður Íslands.
Sú frægð hefur ábyggilega reynst Sævari þung í skauti.
Sævar hélt alltaf fram sakleysi sínu. Hann barðist fyrir að sanna það. Svo ótalmargt hefur komið fram sem sýnir að málatilbúnaðurinn var hreint hneyksli – nú síðast bók Hauks Guðmundssonar, fyrrverandi rannsóknarlögreglumanns í Keflavík.
Sævar mun ekki upplifa að mál hans verði tekið upp að nýju. En það breytir því ekki að það er vel hægt að taka málið upp – og veita Sævari uppreisn æru ef sú verður niðurstaðan.
Sævar átti erfitt líf og deyr fyrir aldur fram. Síðustu árin gaf hann sig vímunni á vald, dvaldi aðallega í Kaupmannahöfn. Blessuð sé minning hans.