Gunnar Tómasson hagfræðingur setti inn eftirfarandi athugasemd hér á vefinn í gær:
„Í fljótu bragði má nefna eftirfarandi orsakavalda að hruninu – og gjaldeyrishöftum í kjölfar þess.
1. Hugmyndafræði nýfrjálshyggju, sbr. umsögn Árna Mathiesen fjármálaráðherra í útvarpsviðtali að það væri ekki hlutverk stjórnmálamanna að segja bankamönnum til verka. Þeir væru sérfræðingar á sínu sviði sem vissu hvernig bezt væri staðið að hlutunum.
2. Ólögleg gengistrygging útlána sem leiddi til glórulausrar útlánagleði banka og annarra lánastofnana.
3. Ólögleg uppsöfnun neikvæðs gjaldeyrisjafnaðar viðskiptabankanna – við hrun bankanna í október 2008 var gjaldeyrisjöfnuður þeirra neikvæður um 2800 milljarða en skv. reglugerð SÍ á grundvelli 13. gr. seðlabankalaga var bönkunum skylt að takmarka hann við 10% af eigin fé sem jafngilti 100 milljörðum.
4. Samspil Seðlabanka Íslands með reglugerðarbroti viðskiptabankanna með því að skilgreina ólógleg gengistryggð krónulán sem gjaldeyriseign við útreikning á gjaldeyrisjöfnuði.
5. Hávaxtastefna Seðlabanka Íslands sem leiddi af sér það innstreymi skammtíma erlends fjármagns sem núna stendur í vegi fyrir eðlilegum gjaldeyrisviðskiptum íslenzku efnahagslífi til óhagræðis.
Allt var þetta á ábyrgð Ríkisstjórnar Íslands.“