fbpx
Föstudagur 12.september 2025
Eyjan

Aum skrif hrunkvöðuls

Egill Helgason
Miðvikudaginn 6. júlí 2011 10:34

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lýður Guðmundsson, maðurinn sem ásamt fáeinum félögum sínum setti íslenska sparisjóðakerfið á hausinn, olli lífeyrissjóðum ómældu tjóni og gróf undan íslensku krónunni er kominn í fjölmiðlaherferð eins og nokkrir aðrir hrunverjar. Exista er í topphópi hinna vanheilögu eignarhaldsfélaga sem fóru ránshendi um íslenskt samfélag, ásamt meðal annars Baugi og Milestone. Gylfi Magnússon, fyrrverandi viðskiptaráðherra, sagði að þessi eignarhaldsfélög hefðu verið meinsemd á í íslensku samfélagi.

Það er eins og þessir menn skilji ekki alvöru málsins. Tjónið sem þeir ollu íslensku þjóðinni nemur hundruðum milljarða króna. En fyrir þeim er þetta allt ósköp léttvægt. Þeir eru gerendur í mesta harmleik i síðari tíma sögu Íslands – það er ekki hægt að kjafta sig frá því í lesendabréfum.

Ég læt mér reyndar ekki detta í hug að Lýður skrifi greinar sínar sjálfur þótt þær birtist undir nafni hans – ekki fremur en Björgólfur Thor Björgólfsson. Grein Lýðs einkennist aðallega af frekar lélegri fyndni og staðhæfingum sem eru studdar litlum eða engum rökum – svona skrif koma oft út úr almannatengslafyrirtækjum. Það eru líklega pr-mennirnir sem hafa ráðlagt Lýð að viðurkenna að hann hafi gert „mistök“.

Á móti þessu er ágætis mótvægi að lesa grein Magnúsar Halldórsson, blaðamanns á Viðskiptablaðinu, þar sem hann fjallaði meðal annars um aðförina að íslensku krónunni.

Í greininni segir Magnús meðal annars:

„Varðandi gjaldeyrismálin fyrir hrun, þá finnst mér upplýsingar úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis bera til baka hjalið um að fall krónunnar fram eftir öllu ári 2008 hafi verið rökrétt þróun sem byggði á vantrausti skilvirks markaðar á gjaldmiðlinum. Stærstu eigendur Kaupþings, almenningshlutafélagið Exista og Kjalar, félag Ólafs Ólafssonar, ásamt félögum eru tengdust Baugi heitnum, gerðu gjaldmiðlaskiptasamninga við Kaupþing þegar halla tók undan fæti, sem fela í sér stórfellt tap fyrir bankann. Það hefur komið fram í dómsmálum vegna deilu um uppgjör á þessum samningum.

Í skýrslunni stendur þetta m.a.:

„Það vakti athygli rannsóknarnefndarinnar að á því tæpa tveggja ára tímabili sem hér var til skoðunar var Kaupþing stór nettó kaupandi gjaldeyris á millibankamarkaði á meðan Landsbanki Íslands veitti miklu magni gjaldeyris út á markaðinn. Eins og fram kemur í kaflanum var Kaupþing ekki eingöngu að kaupa fyrir eigin reikning heldur einnig í miklum mæli fyrir hönd stærstu viðskiptavina sinna.

Frá því í nóvember 2007 og fram í janúar 2008 keyptu fimm innlend fyrirtæki, það er Exista, Kjalar, Baugur og tvö félög tengd Baugi, 1.392 milljónir evra í framvirkum samningum og stundarviðskiptum við íslensku bankana. Meirihluti þess gjaldeyris var keyptur af Kaupþingi. Þetta vekur óneitanlega athygli sérstaklega í ljósi þess að viðskiptin voru mjög umfangsmikil miðað við fyrri viðskipti flestra þessara fyrirtækja.“

Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri hjá Seðlabanka Íslands, lýsti því hvernig þetta birtist starfsfólki í seðlabankanum þegar hann gaf skýrslu hjá rannsóknarnefndinni.

„Þeir [Kaupþingsmenn] ryksuguðu gjaldeyrismarkaðinn og svo þegar þeir eru búnir að því þá hætta þeir að kvóta inn á swap-markaðinn sem gerir það að verkum að í mars 2008 bara hrynur krónan og við stóðum náttúrulega algjörlega ráðþrota í málinu því að þegar þetta gerist fara CDS-in á bankann upp og það eru komnar alls konar áhyggjur af þeim þannig að erlendir aðilar sem eiga krónur þeir bara fara í panik að selja.“

Rannsóknarnefndin sá ástæðu til þess að vísa þessu til embættis sérstaks saksóknara, enda telur hún að krónan hafi markvisst verið veikt til þess að búa til gróða fyrir stærstu eigendur Kaupþings. Eiríkur Guðnason og Davíð Oddsson, þá bankastjórar Seðlabanka Íslands, tilkynntu FME um grunsemdir sínar með bréfi en FME sá ekkert athugavert við þetta. Þeir grunuðu Exista um að vera að búa til tugmilljarða gengishagnað til þess að halda félaginu á lífi, og fegra mynd Kaupþings um leið. Í bréfi þeirra, sem sent var á vormánuðum 2008, stendur orðrétt: „Séu aðilar, sem jafnframt eru í bankastarfsemi, vísvitandi að stuðla að því að grafa undan gjaldmiðlinum, er allt þjóðfélagið undir í því veðmáli. Slík hegðun getur í versta falli leitt til þjóðargjaldþrots. Af þeim sökum er rétt að kanna málið til hlítar jafnvel þótt það byggi að hluta á tilgátum og upplýsingum sem ekki er búið að sannreyna.“

Þó nær ómögulegt sé að sanna þetta sem glæpi, ef ekkert finnst um samkomulag á milli bankans og stærstu eiganda hans er þessum viðskiptum tengist, þá liggur fyrir að þolendur þessa háttalags eru allir Íslendingar. „Sjokkið“ sem kemur á krónuna eftir á, þegar bankarnir hrynja, er ekki síst tilkomið vegna þess að það var búið rústa gjaldeyrismarkaðnum fyrir fram.

Stjórnmálamenn finnst mér aldrei hafa skilið þungann í þessu máli. Fólk úr atvinnulífinu, hjá Viðskiptaráði og Samtökum atvinnulífsins, hefur talað um að krónan sé ónýt og að hún hafi átt þátt í því að allt hrundi. Það má vel vera og er að einhverju leyti rétt. En allra alvarlegustu eftirköst hrunsins, háar skuldir heimila og fyrirtækja, má rekja til þess að grafið var undan gjaldeyrismarkaðnum með óeðlilegum viðskiptaháttum. Það var ekki bara um að ræða vantraust á krónunni heldur kerfisbundna atlögu að henni, sem fólk sem sat fyrir framan skjáborðin í seðlabankanum horfði á, „live“, og stjórnendur bankans töldu geta endað með þjóðargjaldþroti.

Samanburður á tvíburakreppum úr öðrum löndum, það er banka- og gjaldmiðlahruni, eins og Kristrún kvartaði yfir í ræðu sinni að ekki hefði verið gert, er í sjálfu sér ekkert annað en yfirborðsmennska ef sá samanburður byggir ekki á sambærilegum upplýsingum. Afnám bankaleyndar og þar með frumgögn um gjaldeyrisviðskipti gáfu rannsóknarnefndinni færi á að greina nákvæmlega hvað átti sér stað. Hverjir keyptu og hverjir seldu. Þetta hefur aldrei verið gert áður með sambærilegum hætti í neinu landi. Í sjálfu sér þarf ekki að bera þetta saman við hvað átti sér stað annars staðar, nema að því marki sem gert er (Asíu-kreppan og fleiri atriði eru til umfjöllunar í skýrslunni). Fyrst og fremst vegna þess sem Flannery er tíðrætt um í sinni greiningu; hina séríslensku veikleika.

En af hverju skiptir þetta máli þegar kemur að neyðarlögunum og hvort þau séu möguleiki fyrir önnur lönd, eða hafi verið haustið 2008? Það er vegna þess að önnur lönd glímdu ekki við þetta háttalag, þessa mynt og þessa þróun á gjaldeyrismarkaði, ofan á allt annað sem að framan greinir. Allt ýtti þetta undir nauðsyn þess að beita neyðarréttinum þegar í óefni var komið. Ekkert annað kom til greina en að beita neyðarréttinum. Eins og „Wild Card“ í borðspili.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Sigurður Gylfi skrifar: Háskólinn og Hótel Saga sáluga – Svar við rangfærslum DV

Sigurður Gylfi skrifar: Háskólinn og Hótel Saga sáluga – Svar við rangfærslum DV
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Orðið á götunni: Ríkisstjórnin er að moka flórinn eftir sjö ára óstjórn fyrri ríkisstjórnar

Orðið á götunni: Ríkisstjórnin er að moka flórinn eftir sjö ára óstjórn fyrri ríkisstjórnar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Binni í Vinnslustöðinni spinnur fantasíu

Orðið á götunni: Binni í Vinnslustöðinni spinnur fantasíu
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Manneskjur – ekki hugmyndafræði

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Manneskjur – ekki hugmyndafræði