Sagnfræðingurinn Guðni Th. Jóhannesson er höfundur bókarinnar Hrunið sem kom út í hittifyrra. Hann gjörþekkir atburðarásina á dögum íslenska efnahagshrunsins. Guðni skrifar grein í Fréttablaðið í dag um þá fullyrðingu að Geir Haarde hafi reynst einhvers konar bjargvættur þjóðarinnar á þessum tíma. Grein Guðna hljómar svo í heild sinni:
„Geir H. Haarde ber ekki ábyrgð á bankahruninu á Íslandi. Hann braut ekki lög. Hann gerði sitt besta þegar í óefni var komið haustið 2008. En þar með er ekki sagt að hann eða aðrir ráðamenn hafi í öllu staðið sig vel fyrir hrun og þegar það dundi yfir. Í aðdragandanum var andvaraleysið of mikið og þegar holskeflan reið yfir var reynt að grípa til örþrifaráða sem dugðu einfaldlega ekki.
Geir var ekki einn um að bregðast seint og illa við því sem er svo auðvelt að sjá eftir á. Árið 2005, þegar gríðarleg lántaka bankanna stóð sem hæst, dásamaði Halldór Ásgrímsson, forveri hans á stóli forsætisráðherra, „íslenska efnahagsundrið“. Árið 2007 svaraði Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra í stjórn Geirs H. Haarde, þeim sem vöruðu við ofhitnun í íslenskum efnahag með því að spyrja: „Drengir, sjáið þið ekki veisluna?“
Mörg önnur dæmi mætti taka. „Sú einarða afstaða ríkisstjórnarinnar að standa við bakið á fjármálakerfinu okkar var rétt og frá henni verður hvergi hvikað,“ sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra í september 2008. Síðar í þeim mánuði reyndu Seðlabankinn og ríkisstjórnin að bjarga Glitni með því að eignast meirihluta í honum fyrir fúlgu fjár. Í byrjun október átti að bjarga Kaupþingi með risaláni. Um svipað leyti vonaði Geir H. Haarde, ef marka má orð hans í fjölmiðlum, að Landsbankinn stæði af sér fjármálastorminn, sem þá geisaði um allan heim, vegna þess að þar á bæ hefðu menn haft vit á að safna svo miklu af innlánum í útlöndum. Í blálokin hugleiddu stjórnvöld líka að láta lífeyrissjóðina koma bankakerfinu til bjargar. Vandinn var bara orðinn svo mikill að menn réðu ekki við hann. Í því felst lítil stjórnlist.
Skaparar sögunnar ætla augljóslega að skrifa hana líka. Það er skiljanlegt, ekki síst ef menn þurfa að taka til varna í pólitískum réttarhöldum. Þar að auki er sumt af því sem eftiráspekingar halda fram svo ósanngjarnt að fólki hlýtur að svella móður. En ýmis orð að undanförnu um snilld íslenskra ráðamanna í hruninu eru samt líkust því að ökumaður, sem missti stjórn á bíl sínum þannig að hann valt ótal sinnum áður en hann stöðvaðist ónýtur úti í móa, segi sigri hrósandi: „Sjáiði bara, ég náði að láta hann lenda á hjólunum.“
Jón Trausti Reynisson, ritstjóri DV, skrifar leiðara í blað sitt um sama efni og segir meðal annars:
„Tilgangur rannsóknarskýrslu Alþingis var að vera hlutlaus heimild um aðdraganda hrunsins og skilgreina þá ábyrgð sem menn báru. Listi mistaka og vanrækslu er svo langur að ekki er hægt að endurtaka hann í hvert skipti sem Davíð og Geir segjast vera ábyrgðarlausar hetjur hrunsins. Þeir munu segja það aftur og aftur. Skeytingarleysi gagnvart staðreyndum var einkenni starfa þeirra. Endurtekningin er eitt sterkasta vopn áróðurstækninnar.
Einstaka sinnum mun einhver nenna að rifja söguna upp, eins og hún var: Fyrst hrósuðu þeir sér af efnahagsástandinu. Svo leyndu þeir því að undirstöður efnahagsundurs þeirra væri blekking, sem væri í þann mund að hrynja á kostnað almennings. Síðan, þegar allt hrundi, báru þeir enga ábyrgð á efnahagsmálunum. Loks, þegar þeim hafði verið bolað burt og efnahagurinn fór að rísa úr rústum sínum, þökkuðu þeir sjálfum sér. Nú reyna þeir að sannfæra fólk um að þeir séu hetjur. Þeir kunna ekki að skammast sín.“