Ekkert bendir til annars en að Noregur verði áfram eitt allraríkasta land í heimi.
Magnús Þór Hafsteinsson skrifar greinargóða grein um það hér á Eyjuna hvernig Norðmenn og Rússar eru að skipta á milli sín Barentshafinu. Þar er mikið af gasi og olíu sem mun áfram stuðla að hinum feiknargóðu lífskjörum í Noregi. Norðmenn þurfa ekki að óttast um lífeyrissjóðina sína.
Nú þegar eru þúsundir Íslendinga að vinna í Noregi. Þangað fer fólk og fær miklu hærra kaup en á Íslandi. Það er sagt að Noregur færi létt með að gleypa allt íslenska heilbrigðiskerfið. Það eru litlar líkur til þess að lífskjörin á Íslandi verði jafn góð og í Noregi þótt menn geti sjálfsagt látið sig dreyma um það. Noregur mun halda áfram að toga í Íslendinga og til langframa getur það orðið til talsverðs tjóns fyrir land og þjóð.