Það að útlendingar þurfi að borga miklu meira ofan í Bláa lónið en heimamenn sýnir hvað efnahagsástandið á Íslandi er óburðugt.
Ég lenti í þessu í fyrra í öðru landi – nefnilega Rússlandi.
Var að hugsa um að kaupa mér miða á óperusýningu í Sankti Pétursborg, í frægu leikhúsi. Þar voru miðarnir helmingi dýrari fyrir útlendinga en fyrir Rússa. Ég hætti við – okrið var svo yfirgengilegt.
Hið sama var uppi á teningnum þegar ég borgaði inngangseyri á suma ferðamannastaðina þar.
Kannski er það efnahagsleg nauðsyn að hafa svona tvöfalt kerfi – og svo er spurning hvort við festum það í sessi til frambúðar?
Miðar á tónleika í Hörpu eru satt að segja frekar ódýrir – gætum við látið útlendinga borga fyrir sína miða í gjaldeyri og þá hærri upphæðir en við greiðum?
Það er hins vegar ekki rétt hjá breska kaupsýslumanninum sem kvartar yfir inngangseyrinum í Bláa lónið og segir að komið sé fram við hann eins og „annars flokks fólk“. Það eru nefnilega þeir sem borga minna í þessu kerfi sem eru annars flokks.