Hrunið 2008 var tækifæri til að reyna að hnekkja fjármálakerfinu sem hefur tekið völdin í heiminum. Það var ekki gert. Hvorki í Evrópu né Bandaríkjunum – og ekki heldur á Íslandi.
Fjármálastofnanir eru aftur farnar að mala gull og háttsettir starfsmenn þar fá sín ofurlaun.
En þetta kemur almenningi lítt til góða. Sá litli efnahagsbati sem hefur orðið er aðallega í bönkum og stórfyrirtækjum – sem eru orðin æðri ríkisstjórnum heimsins.
Ríkisvaldið getur ekki, kann ekki, vill ekki eða þorir ekki að taka á þessu af ótta við að fjármálakerfið hrynji. Og líka vegna þess að margir stjórnmálamenn eru í raun útsendarar og útverðir kerfisins.
En aðalástæðan er sú að menn hafa ekki þor og hugmyndaflug til að fara aðrar leiðir.
Í Bandaríkjunum fyllir Obama ríkisstjórn sína af mönnum sem eru komnir af Wall Street, í Evrópu hafa þó verið uppi kenningar um að reyna að halda aftur af þessu skrímsli – en þær ganga því miður ekki nógu langt.
Fólk skilur heldur ekki alveg eðli fjármagnsins. Í Bandaríkjunum hefur verið smávægilegur efnahagsbati, en hann þýðir ekki fleiri störf. Stórfyrirtæki þar eru að græða miklar fjárhæðir, en samt verða ekki til fleiri störf. Í staðinn beina stórfyrirtækin fjármagninu til Brasilíu, Indlands og Kína þar sem vinnuaflið er ódýrara.