Rikisstjórnin hangir saman á því einu – þeirri hugmynd að vinstri stjórn megi ekki klikka. Jú, og á andúðinni á því að Sjálfstæðisflokkurinn komist að. Kannski lika aðeins á persónulegum tengslum Jóhönnu og Steingríms.
Annars eru ríkissjórnarflokkarnir eiginlega ekki sammála um neitt sem skiptir máli.
Samfylkingin er að þokast að þeirri niðurstöðu að kvótafrumvörp Jóns Bjarnasonar séu ómöguleg. Karlinn kom seint fram með frumvörpin og menn hafa verið að henda ýmsu úr þeim. Nú segir Ólína Þorvarðardóttir að nær hefði verið að halda sig við fyrningarleiðina eins og Samfylkingin vildi.
Það eru að hefjast samningaviðræður við ESB og þar er staðfest djúp gjá milli flokkanna. Þegar dregur nær því að viðræðunum ljúki mun spennan aukast milli þeirra vegna Evrópumálanna.
Svo eru það atvinnumálin, en þar fer því fjarri að flokkarnir gangi í takt. Samfylkingin er í raun nálægt því að vera stóriðjuflokkur, en Vinstri grænir reyna að leggja stein í götu slíkrar starfsemi við hvert fótmál.