fbpx
Fimmtudagur 11.september 2025
Eyjan

Gjaldþrot Seðlabankans og hrunið

Egill Helgason
Laugardaginn 11. júní 2011 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lesandi síðunnar sendi þetta bréf.

— — —

Gjaldþrot Seðlabankans og hrunið

Við vitum öll hvað það er sem orsakar erfiðleika okkar Íslendinga sem er auðvitað umfang þess hruns sem hér varð. Það þarf ekki frjótt ímyndunarafl til þess að átta sig á afleiðingum þess fyrir lítið land eins og Ísland þegar allir helstu bankar ofvaxins bankakerfis hrynja í einum vettvangi.

Eftir að Landsbankinn og Búnaðarbankinn voru einkavæddir þróuðust þessir þrír viðskiptabankar úr því að vera um það bil tvöföld landsframleiðsla að stærð í tí- til tólffalda landsframleiðslu. Sem sé þeir fóru úr því að vera einingar upp á 3000 mia. upp í 15 – 18 þúsund milljarða. Fall þeirra skildi eftir stórt brunasár á íslensku efnahagslífi.

Það er þó þannig að legar litið er til baka að þá er ljóst að það er ekki fall bankanna í sjálfu sér sem er að reynast okkur hvað erfiðast í uppbyggingunni. Það sem hefur kostað okkur mest og reynst einn mesti dragbítur á endurreisnina er sú staðreynd að Seðlabanki landsins fór á hausinn.

Ef Seðlabankinn hefði ekki orðið gjaldþrota hefði ríkissjóður sparað sér 192 mia.kr. og ljóst að staða landsins væri miklu mun betri – kreppan hefði ekki orðið jafn djúp og raunin varð og ríkissjóður betur í stakk búinn til þess að takast á við hana.

Endurfjármögnun Seðlabankans er dýrasta afleiðing hrunsins og hefur reynst dýrari fyrir ríkissjóð en endurfjármögnun alls fjármálakerfisins. Kostnaðurinn vegna gjaldþrots Seðlabankans sem hlutfall af landsframleiðslu er einn sá mesti sem nokkur ríkissjóður í gervallri veröldinni hefur þurft að taka á sig vegna fjármálakreppunnar. Aðeins fjármögnun írsku bankanna hefur reynst hærri.

Og það er ekki skrýtið að fall hans reyndist svona dýrt þegar maður les lýsingu í Rannsóknarskýrslu Alþingis hjá starfsmanni bankans í aðdraganda hrunsins:

„Nei, nei, nei. Við vorum búnir að opna á allt, við vorum, kjallarinn í Seðlabankanum er fullur af brettum með handhafaskuldabréfum. Við vorum búnir að taka af þeim, við tókum af þeim allt sem þeir gátu afhent. […] Það sem við reynum að gera með því að opna á þessa ABS-a og þetta erlenda er að byrja á að opna á allt sem þeir geta afhent okkur rafrænt. Það er bara svo rosalega mikið vesen að taka við einhverju sem er fýsískt skuldabréf. Og það er í rauninni ekki fyrr en held ég bara í september sem við erum farnir að taka þetta á brettum, þarna fasteigna…“

Það var semsé á þessum tíma búið að gjörtæma fjárhirslur bankans og fylla þær af handónýtum pappírum í staðinn. Óráðsíu aðilarnir, útrásarvíkingarnir, fengu endalausa fyrirgreiðslu og að lokum endaði höfuðverkurinn hjá skattgreiðendum. Þegar sagan verður rituð þá verður það þetta sem menn munu reka sérstaklega augun í. Það sorglega við gjaldþrot Seðlabankans er auðvitað að 192 mia. kr. gufuðu upp í þoti ofvaxinna útrásarbanka. Það horfir öðruvísi við framlag ríkissjóðs í endurreisn fjármálakerfisins eftir hrun því að ríkið fær eignarhlut á móti.

Til að mynda að þá lagði ríkið Landsbankanum til uppistöðuna af nýju eigin fé hans, 122 mia. kr.og á 81% eignarhlut í bankanum. Samkvæmt nýjasta uppgjöri bankans nálgast verðmæti þessa eignarhlutar nú 150 milljarða að nafnverði eða 9% af VLF og hefur því ávöxtunin verið vel viðunandi. Þess fyrir utan er að það ánægjulegt að stærsti baki landsins er aftur kominn í meirihlutaeigu ríkisins.

Umræða um gjaldþrot Seðlabankans og neikvæðar afleiðingar hefur hins vegar verið fremur lítil miðað við þá umræðu sem hefur orðið um aðra þætti hrunsins. Væri ekki til aðmynda tilvalið fyrir stærsta stjórnarandstöðuflokkinn að heimta skýrslu um gjaldþrot Seðlabankans?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Faðir Oscars ákærður

Nýlegt