Ég hef haft efasemdir um að það sé rétt að lögsækja Geir Haarde einan fyrir efnahagshrunið á Íslandi. Það lítur allt út fyrir að þetta ferli verði bæði erfitt og vandræðalegt.
Og fyrst ákveðið var að hafa réttarhöld af þessu tagi eru aðrir sem þar hefðu líka átt að vera.
En það er samt skrítið að heyra tóninn í valdsmönnunum frá þessum tíma. Það kannast enginn við að hafa gert neitt.
Davíð Oddsson er náttúrlega við sitt heygarðshorn – hann er maður sem ófær um að biðjast afsökunar eða játa að hann hafi gert mistök.
Halldór Ásgrímsson kom í sjónvarpsviðtal og þumbaðist við eins og hans er háttur.
Björgvin G. er keikur á þingi og ætlar að sitja þar lengi enn.
Árna Matt var útvegað fínt djobb í Róm.
Ingibjörg Sólrún rétt slapp við að lenda fyrir landsdóminum.
En Geir sjálfur – hann segir á blaðamannafundi í dag að ákvarðanir ríkisstjórnar hans í aðdraganda bankahrunsins hafi reynst „réttar“.
Já það er nú einmitt það – enginn er ábyrgur og ekki heldur Hannes Smárason sem nú er farinn að segja að hann beri ekki ábyrgð á þessu „blessaða hruni“.