fbpx
Miðvikudagur 10.september 2025
Eyjan

Landið sem aldregi skemmdir þín börn

Egill Helgason
Mánudaginn 23. maí 2011 18:13

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í Móðuharðindunum týndi fjórðungur Íslendinga tölunni. Þeir voru reyndar ekki margir fyrir, voru um 48 þúsund en fækkaði í um 38 þúsund eftir hörmungarnar. En þar sem hamfarirnar voru mestar, suðaustanlands, dóu tæp fjörutíu prósent íbúanna. Móðuharðindin eru sögð hafa staðið í tvö ár, það var ekki einungis að náttúran væri óblíð, heldur var fyrirstaðan hjá þjóðinni minni, fólk var illa nært og veikburða, húsakostur var lélegur og mataræði fábreytt. Þjóðin glímdi við kulda, myrkur, óblíða náttúru og hamfarir sem dundu reglulega yfir.

Manni verður líka hugsað um aðstæðurnar. Fólk hafði lítil tök á að vita hvers konar atburðir voru sem dundu yfir það – jarðvísindi voru óþekkt, það var engin leið að spá um framvinduna, fréttir sem bárust voru mjög stopular. Það er annað að vera uppi á tíma ljósvakafjölmiðla, internets og almannavarna.

Þeir sem verst urðu úti fóru á vergang – dóu oft á leiðinni. Það var ekkert þéttbýli sem hægt var að flýja í.

Svo lýsir Jón Steingrímsson eldklerkur öskufalli á Kirkjubæjarklaustri við upphaf Móðuharðinda:

,,Þeir sem verið hafa árla á ferli, geta borið um það, að morguninn hefur verið óvenju fagur. Sólin skín úr bláu heiði, og kyrrðin yfir hinni breiðu byggð er svo djúp, að mönnum finnst helst sem gjörvöll náttúran haldi í sér andanum. En um dagmálabil verða allt í einu umskipti. Jörðin rökkvast, og ef betur er aðgætt, má sjá gríðarstóran og kolsvartan mökkva, sem stígur upp að baki næstu fjalla, til norðurs við Síðuhérað, og leggur smám saman undir sig allt himinhvolfið. Þessi ferlegi mökkur grúfir æ þyngra yfir byggðarlaginu og breiðir úr sér eins langt og auga sér. En nú tekur einnig að rigna yfir þéttum sandi, dökkgráum og bláleitum, svo að sporrækt verður á jörðinni og vart sér handaskil í húsum inni, en þar sem þessi aska fellur í vatn, gerist það svart sem blek. Fénaður hópar sig saman og veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið og fuglar fljúga upp með sáru kvaki, áttaviltir og óttaslegnir.“

Vesöld Íslendinga var algjör á þessum tíma. Hér bjó snauðasta fólk í Evrópu. Upp úr því gátu samt sprottið einkennilegar hugmyndir eins og í kvæði sem mér finnst gaman að vitna í, það er eftir Bjarna Thorarensen. Þjóðin er hálfdauð úr hörmungum en skáldið telur að það sé í raun hið besta mál – menn eru þá ekki að veslast upp í hita og leti:

Þú nafnkunna landið sem lífið oss veittir,
landið sem aldregi skemmdir þín börn,
hvert þinnar fjærstöðu hingað til neyttir,
hún sér þér ódugnaðs framvegis vörn.

Undarlegt sambland af frosti og funa,
fjöllum og sléttum og hraunum og sjá;
fagurt og ógurlegt ertu þá brunar
eldur að fótum þín jöklunum frá!

Fjör kenni´ oss eldurinn, frostið oss herði,
fjöll sýni torsóttum gæðum að ná;
bægi sem kerúb, með sveipanda sverði
silfurblár Ægir oss kveifarskap frá.

Þó vellyst í skipsförmum völskunum meður
vafri að landi, eg skaða ei tel;
því út fyrir kaupstaði íslenskt í veður
ef hún sér vogar, þá frýs hún í hel.

Ef læpuskaps ódyggðir eykjum með flæða
út yfir haf vilja læðast þér að:
með geigvænum logbröndum Heklu þær hræða
hratt skalt þú aptur að snáfa af stað.

En megnirðu´ ei börn þín frá vondu að vara,
og vesöld með ódyggðum þróast þeim hjá,
aftur í legið þitt forna þá fara
föðurland áttu, – og hníga í sjá

Bjarni var undir áhrifum frá rómantísku stefnunni. En hann þótti óttalega leiðinlegur við alþýðu manna, hann var dómari og þótti harður í dómum, virti engar málsbætur. Almúgamaðurinn Bólu-Hjálmar var heldur upp á kant við Bjarna Thorarensen og hann orti Þjóðfundarsöng 1851 sem virkar eins og nokkurs konar andsvar við kvæði Bjarna.

Aldin móðir eðalborna,
Ísland, konan heiðarlig,
ég í prýðifang þitt forna
fallast læt og kyssi þig,
skrípislæti skapanorna
skulu ei frá þér villa mig.

Þér á brjósti barn þitt liggur,
blóðfjaðrirnar sogið fær,
ég vil svarinn son þinn dyggur
samur vera í dag og gær,
en hver þér amar alls ótryggur,
eitraður visni niður í tær.

Ef synir móður svíkja þjáða
sverð víkinga mýkra er,
foreyðslunnar bölvan bráða
bylti þeim, sem mýgjar þér,
himininn krefjum heillaráða
og hræðumst ei, þó kosti fjer.

Legg við, faðir, líknareyra,
leið oss einhvern hjálparstig,
en viljirðu ekki orð mín heyra,
Ísland eilíf náðin guðdómlig,
mitt skal hróp af heitum dreyra
himininn rjúfa kringum þig.

Móðir vor með fald og feldi
fannhvítum á kroppi sér,
hnigin að æfi kalda kveldi,
karlæg nær og holdlaus er.
Grípi hver sitt gjald í eldi
sem gengur frá að bjarga þér.

Sjáðu, faðir, konu klökkva
sem kúrir öðrum þjóðum fjær.
Dimmir af skuggum dauðans rökkva,
drottinn, til þín hrópum vér:
„Líknaðu oss eða láttu sökkva
í leg sitt aftur forna mær!“

skaftareldar_eftir_asgrim_945090-1Mynd af Skaftáreldum eftir Ásgrím Jónsson. Hún er fengin af vef Haralds Sigurðssonar eldfjallafræðings.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Manneskjur – ekki hugmyndafræði

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Manneskjur – ekki hugmyndafræði
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Framsókn í útrýmingarhættu – menn verða að gæta orða sinna

Svarthöfði skrifar: Framsókn í útrýmingarhættu – menn verða að gæta orða sinna
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Óttar Guðmundsson skrifar: Velkominn herra skattstjóri!

Óttar Guðmundsson skrifar: Velkominn herra skattstjóri!
Eyjan
Fyrir 1 viku

Hildur hætt sem þingflokksformaður

Hildur hætt sem þingflokksformaður