Ráðuneyti á Íslandi eru mörg og smá. Það hefur lengi staðið til að sameina ráðuneyti svo þau verði burðugri, þetta var til dæmis í stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, en þetta hefur ekki verið vinsæl hugmynd undanfarið – það hefur myndast mjög sérstök varðstaða um landbúnaðarráðuneyti Jóns Bjarnasonar.
Landbúnaðarráðuneytið útvistar miklu af verkefnum sínum til Bændasamtakanna. Ráðuneytið hefur stundum verið talið nokkurs konar útibú frá samtökunum.
Vigdís Hauksdóttir ber upp spurningu í þinginu um verktöku á vegum ráðuneyta. Það er staðreynd að ráðuneyti fá fólk út í bæ til að vinna verkefni fyrir sig. Vigdís tengir þetta stjórnmálaspillingu og það kann svosem að vera í einstaka tilvikum. En það er varla spurning að það getur verið hagkvæmara að láta sérfræðinga taka að sér ákveðin verk og greiða fyrir þau, en að hafa fjölda fastráðins sem þiggur laun, launatengd gjöld og greiðslur í lífeyrissjóði. Og það eru auðvitað ekki bara ráðuneyti sem starfa svona, heldur líka ríkisstofnanir – og einkafyrirtæki. Þetta er svo sjálfsagt að þarf eiginlega ekki að taka það fram. Ef verktakan er hins vegar skjól fyrir stjórnmálaspillingu, ja, þá þarf að afhjúpa það með dæmum.
Eins og áður sagði eru ráðuneyti hér oft mjög vanmegna vegna manneklu og skorts á sérþekkingu. Það er til dæmis vitað að þau eiga erfitt með að fylgjast með því sem er að gerast á Evrópuvettvangi – þar sem við erum þó aðilar í gegnum EES. Við erum reyndar almennt mjög illa að okkur um það sem gerist innan EES og ESB, eða ekki hefur hann verið mikill fréttaflutningurinn af póstmálinu mikla sem veldur því að Norðmenn hóta að beita neitunarvaldi innan EES.