Þröstur Helgason segir að menning sé ekki hús. Það er rétt, að sumu leyti. Það þarf að vera til list til að setja í menningarhúsin.
Bókmenntir þrífast ágætlega án stórra húsa – en þó ekki bókasafna eða bókabúða.
En tónlist þarf hús og leiklist og ópera – já, og það þarf hús undir listasöfn og líka kvikmyndasýningar.
Fólk ferðast um heiminn og fer í fræg menningarhús: Royal Albert Hall í London, Metropolitanóperuna og Moma í New York, Uffizi í Flórens, Beauborg í París, Guggenheim í Bilbao, óperuna í Osló, Lousiana í Kaupmannahöfn, og svo má lengi telja.
En það er alveg rétt hjá Þresti, umræðan um tónlistarhúsið Hörpu má ekki vera eintómt lof. Húsið er ferlega stórt, það er byggt samkvæmt útbólgnum viðmiðum útrásartímans – það hefði ekki orðið svona stórt ef bygging þess væri að hefjast núna. En húsið er orðið að veruleika, eins og það er, það er allt í lagi að skoða aðdragandann að byggingunni og kostnaðinn, en nú stendur upp á okkur að reyna að nýta það eins og hægt er.
Húsið hefur burði til að verða samkomuhús Reykvíkinga. Þarna eru margir salir sem geta nýst við ýmis tækifæri. Það verður að segjast eins og er að húsin sem við höfum eru alveg mátulega aðlaðandi.
En þá verða stjórnendur hússins líka að gæta þess að útiloka ekki fólk, til dæmis með alltof hárri leigu. Það hafa borist fréttir um að kjörin sem bjóðast tónlistarmönnum sem vilja komast í húsið séu mjög fráhrindandi. Það er óþolandi.
Í gærkvöldi hélt lúðrasveitin Svanur tónleika í Hörpu. Ég veit ekki hver aðsóknin var eða hvernig dæmið kemur út fjárhagslega. En mér finnst góð tilhugsun að lúðrasveit haldi tónleika í húsinu. Það er nákvæmlega eins og það á að vera.