Það virðist enginn vera sérlega ánægður með kvótafrumvarp sjávarútvegsráðherra.
Sjálfstæðisflokkurinn er á móti eins og vitað var, afstaða Framsóknar er aðeins óljósari – þau hafa tjáð sig um frumvarpið Gunnar Bragi Sveinsson og Eygló Harðardóttir og það er enginn sérstakur samhljómur í orðum þeirra. Eygló fann ýmislegt sem hún taldi gott í frumvarpinu, Gunnar Bragi var neikvæður.
Þingmenn Samfylkingarinnar óttast pólitískar úthlutanir veiðiheimilda, en Hreyfingin boðar sitt eigið frumvarp. Björn Valur Gíslason, þingmaður VG, hafði líka efasemdir um atriði í frumvarpinu í Silfrinu á sunnudag.
Mogginn hamast gegn öllum breytingum á kvótakerfinu og Fréttablaðið vill líka óbreytt kerfi, en er aðeins hófstilltara í sínum málflutningi. Kvótasinnar hafa nokkra yfirburði í prentmiðlunum. DV er hins vegar andsnúið kvótakerfinu.