Við fórum að hjóla í kvöldblíðunni.
Það var stóreflis regnbogi yfir Vatnsmýrinni og tíma tveir regnbogar. Nú er verið að sýna hasarmynd með norrænu guðunum sem heitir Thor – þar í myndinni kallast regnboginn Bæfrost (Bifröst). Ég sagði Kára að Þórsgata héti eftir sama Thor og er í myndinni – honum fannst gatan fremur lítilfjörleg miðað við það.
Við sáum tjald, lóu, og par af litlum vaðfuglum sem ég bar ekki kennsl á – líktust frekar sanderlu. Svo er fullt af gæsum sem eru búnar að skíta út allt svæðið í kringum Norræna húsið. En ég sá ekki kríu. Einu sinni var sagt að þessir miklu langflugsfuglar kæmu á Tjörnina 14. maí. En kannski er sílamávurinn endanlega búinn að flæma kríuna burt?
Við Tjörnina hefur verið komið fyrir styttu af Tómasi Guðmundssyni þar sem hann situr á bekk. Það er engu líkara en skáldið hafi farið út í krumpuðum jakkafötum og flókainniskóm.