Það líður nú að því að landsdómsmálið á hendur Geir Haarde verði tekið fyrir. Það er einstæður atburður í lýðræðisríki að forsætisráðherra sé settur fyrir dóm vegna embættisfærslu sinnar. Málið verður þingfest í júní.
Og auðvitað má segja að Geir beri einna þyngsta ábyrgð á því sem gerðist hér árin fyrir október 2008. Hann var hæstráðandi frá 2006 til 2008.
En samt þegar þetta er að verða að veruleika er hálfgert óbragð í munni margra. Það var slysalegt þegar Alþingi ákvað einn dagpart að hann skyldi einn sæta ákæru.
Og sleppa í leiðinni þeim Árna Mathiesen, Björgvini G. Sigurðssyni og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur – að maður nefni svo ekki Davíð Oddsson og Jónas Fr. Jónsson og fleirum sem hefði vel komið til greina að láta svara fyrir dómi.