Það eru tveir gamlir stjórnmálamenn sem einkum hafa gert lítið úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, fjandvinirnir Davíð Oddsson og Ólafur Ragnar Grímsson. Svo eru einhverjir sem virðast ekki muna hvað stóð í henni. Hér eru til upprifjunar brot úr siðfræðihluta skýrslunar, 8. bindinu, þar sem fjallað er um forsetann:
— — —
„Þegar rauðu ljósin tóku að blikka árið 2006 og svo af auknum krafti 2007 og í upphafi árs 2008 var forsetinn einn þeirra sem taldi gagnrýni á íslenskt viðskiptalíf og hættumerkin sem bent var á orðum aukin, Íslendingar yrðu að kynna málstað sinn betur, endurtók hann margsinnis og lagði áfram sitt af mörkum í ferðum og ræðum í þágu útrásarinnar.
Í kjölfar hruns íslensks efnahagslífs hljóta að vakna margar spurningar um hlut forsetaembættisins í útrásarsögunni, ekki síst í ljósi endaloka sumra þeirra fyrirtækja sem fremst voru í flokki og þess sem fram hefur komið um starfsemi þeirra.Var embætti forseta Íslands misnotað í þágu útrásarinnar til að gera einstaka forkólfa og fyrirtæki trúverðug gagnvart erlendum fjárfestum? Var það hlutverk sem forsetinn tók að sér eðlilegt þar sem átti í hlut þjóðhöfðingi sem á að vera sameiningartákn þjóðarinnar? Hver var þáttur forsetans við að halda á lofti gagnrýnislausri lofgjörð um yfirburði íslenskra athafnamanna eða „athafnaskálda“, eins og hann kallaði þá margsinnis í ræðum og fyrirlestrum heima sem erlendis? Hverjum var forsetinn og embætti hans að þjóna og hvert á hlutverk forseta Íslands að vera?“
— — —
„Forsetinn sagði m.a.: „Útrásin er byggð á hæfni og getu, þjálfun og þroska sem einstaklingarnir hafa hlotið og samtakamætti sem löngum hefur verið styrkur okkar Íslendinga […]. Lykillinn að árangrinum sem útrásin hefur skilað er fólginn í menningunni, arfleifðinni sem nýjar kynslóðir hlutu í vöggugjöf, samfélaginu sem lífsbarátta fyrri alda færði okkur, viðhorfum og venjum sem eru kjarninn í siðmenningu Íslendinga.“ Forsetinn fór yfir kenninguna um þættina sem mótuðu íslenska andann, að þessu sinni nefndi hann tíu atriði. Forsetinn klykkti út með því að líkja íslensku samfélagi við ítalska endurreisn, renaissans, „þar sem blómaskeiðið byggðist jöfnum höndum á viðskiptum, vísindum, listum og samfélagi fólks sem skarar framúr á ólíkum sviðum.“ Forsetinn hafði einnig uppi almenn varnaðarorð um að útrásarmenn glötuðu ekki tengslum við samfélagið.“
— — —
„23. apríl 2008 skrifaði forsetinn bréf til krónprinsins í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Sheiks Mohammed Bin Zayed Al Nahyan. Þar segir: „In this respect I was very pleased to learn from my friend Mr. Sigurdur Einarsson, the Chairman of Kaupthing Bank, the largest Icelandic bank, that it had been selected by Masdar and Mubadala as one of the candidate banks for the role of Strategic Financial Advisor to the Masdar City development.“
Enn skrifaði forsetinn í þágu Sigurðar Einarssonar, sem hann vísaði til sem vinar síns í síðastnefndu bréfi, nú til manns sem síðar kom við sögu Kaupþings. 22. maí 2008 skrifaði forsetinn til emírsins Hamads Bin Khalifa Al Thani í Katar og sagði: „As I emphasized in our discussion on Tuesday, there are now three main pillars in the evolution of our growing cooperation: 1. Banking and finance where the negotiations with Kaupthing Bank have a priority role.“ Forseti Íslands átti samkvæmt bréfinu fund eða samtal við Al Thani sem keypti hlutabréf í Kaupþingi með peningum frá Kaupþingi en það er önnur saga.“
— — —
„Forseti Íslands á samskipti við mikinn fjölda fólks af öllum stigum. Þegar haldin eru boð á Bessastöðum er eðlilegt að þangað sé boðið því fólki sem tengist tilefninu, t.d. viðskiptum eða menningu viðkomandi lands ef um erlenda gesti er að ræða. Því er ekkert óeðlilegt við það að útrásarvíkingarnir hafi verið tíðir gestir í boðum á Bessastöðum meðan veldi þeirra var og hét. Hitt er annað mál hvort þeir eða í það minnsta sumir þeirra hafi haft óeðlilega greiðan aðgang að forsetanum og opinberum bústað hans í þeim tilgangi að tryggja ákveðin viðskipti, sbr. þau bréf sem hann skrifaði í þágu einstakra fyrirtækja. Hér skulu tekin nokkur dæmi um boð sem haldin voru á Bessastöðum í þeim beina tilgangi að styðja ákveðin viðskipti, eða með öðrum orðum um það hvernig forsetinn og opinber bústaður embættisins voru notaðir til að sanna fyrir útlendingum að viðkomandi viðskiptamenn væru trausts verðir. Dæmin eru tekin úr bókinni Sögu af forseta. Þar segir m.a.: „Sigurður Einarsson stjórnarformaður Kaupþings banka hefur verið tíður gestur á Bessastöðum og sama má segja um forráðamenn annarra banka.“
— — —
„Þegar horft er til baka yfir þá atburði sem leiddu til hruns í íslensku efnahagslífi vekur þáttur forseta Íslands sérstaka athygli. Þótt stjórnkerfið í heild beri með margvíslegum hætti ábyrgð á því sem gerðist verður ekki hjá því komist að skoða embætti forseta Íslands sérstaklega, svo hart gekk forsetinn fram í þjónustu sinni við útrásina og þá einstaklinga sem þar voru fremstir í flokki. Forsetinn kom ekki að stjórnvaldsákvörðunum en hann ber ásamt fleirum siðferðilega ábyrgð á því leikriti sem leikið var í kringum foringja útrásarinnar og fyrirtæki þeirra. Þau reyndust ekki vera í neinu frekar en keisarinn í sögu H.C. Andersen.
Ljóst má vera að forsetinn gekk mjög langt í þjónustu við einstök fyrirtæki og einstaklinga sem stýra þeim eins og hann hefur sjálfur viðurkennt nokkrum sinnum eftir hrunið. Forsetaembættið var óspart nýtt í þágu einstakra aðila til að koma á tengslum víða um lönd. Þegar lýðræðislega kjörinn forseti lands talar á opinberum vettvangi sem fulltrúi þjóðar sinnar er jafnan hlustað og því skiptir máli hvað hann segir og við hverja hann talar. Þar liggur ábyrgð forseta Íslands. Forsetinn beitti sér af krafti við að draga upp fegraða, drambsama og þjóðerniskennda mynd af yfirburðum Íslendinga sem byggðust á fornum arfi. Það er athyglisvert að nokkrir þeirra eiginleika sem forsetinn taldi útrásarmönnum til tekna eru einmitt þeir þættir sem urðu þeim og þjóðinni að falli. Í ljósi sögunnar hefði þurft mun meiri aga og reglufestu við ákvarðanatöku, hófsemi í framkvæmdagleðinni, reglur um skráningu fundargerða sem og óæskileg tengsl milli einstaklinga. Þrátt fyrir að kenningar forsetans væru harðlega gagnrýndar hélt hann áfram að lofa útrásina. Hann tók þátt í að gera lítið úr þeim röddum sem vöruðu við hættulega miklum umsvifum íslenskra fyrirtækja.
Lærdómar:
– Skýra þarf hlutverk forseta Íslands mun betur í stjórnarskránni.
– Setja þarf reglur um hlutverk og verkefni forseta Íslands og samskipti hans við önnur ríki.
– Æskilegt væri að forsetaembættið setti sér siðareglur þar sem meðal annars yrðu ákvæði um það með hvaða hætti er eðlilegt að hann veiti viðskiptalífinu stuðning.“