Gregor Peter Schmitz skrifar í Der Spiegel um týndan áratug Bandaríkjanna. Það sé í raun lítill sigur að ná Osama Bin Laden – tíu árum of seint. Það hafi ekki stafað ógn af honum lengur þar sem hann bjó einangraður í húsi í Pakistan og hafði hvorki síma né internet og var alveg úr tengslum við arabíska byltingarvorið. Hins vegar hafi síðasti áratugur í sögu Bandaríkjanna verið stöðugur óheillatími. Afgangur á fjárlögum breyttist í óskaplegan fjárlagahalla – og nú er spurning hvort voldugasta ríki í heimi geti staðið undir skuldum sínum. Skuldir eru meira áhyggjuefni en hryðjuverk.
Bandaríkin hafi háð tvö blóðug stríð eftir 11. september 2001, þau hafi reynst óhemju dýr og dregið kraft úr heimsveldinu. Á meðan hafi Kína verið að rísa og stefni í að vera stærsta efnahagsveldi heims innan tíðar. Bandaríkin eyði nú meiru í varnarmál og þjóðaröryggi en öll ríki heims samanlagt. Á sama tíma einkennist innanlandspólitíkin í landinu af klofningi, heift og hatri.
Bandaríkin hafi semsagt skaðað sjálf sig stórlega á tímanum sem er liðinn frá 11/9 – síðbúinn dauði Bin Ladens bæti það engan veginn upp.