Það er mjög einkennileg hugmyndafræði sem Lýður læknir lýsir í þessum pistli sínum. Læknavaktin er lögð niður en í staðinn skal fólk reyna að dröslast veikt að næturþeli á sjúkrahús.
En eins og Lýður bendir á getur lítil næturheimsókn læknis leyst ýmis vandamál, slegið á kvilla og kvíða.
Miðstýringaráráttan í kerfinu hjá okkur Íslendingum er skelfileg. Það á við um heilbrigðiskerfið og það á líka við um skólakerfið. Þar erum við föst í fyrirkomulagi hinna blönduðu bekkja sem ég vík ábyggilega seinna að.
En hvað varðar læknisþjónustuna þá rifjast upp fyrir mér að við í fjölskyldunni höfum tvívegis þurft á lækni að halda að næturlagi á ferðalögum í Frakklandi. Við höfum hringt í tilskilið númer og fengið lækni til okkar fljótt og örugglega, í bæði skiptin á hótelherbergi. Þjónustan var ekki dýr og í bæði skiptin var vandinn leystur – í annað skiptið reyndist lungnabólga ekki vera lungnabólga heldur öndunarfærasýking sem var ekki erfitt að lækna.
Mér var sagt að í Frakklandi giltu strangar reglur um svona sjúkravitjanir, þær þykja nauðsynlegur þáttur í heilbrigðisþjónustunni og í gildi eru ákvæði sem segja að læknir verði að vera kominn á staðinn innan ákveðins tíma eftir að hringt er.