Sívaliturninn í Kaupmannahöfn?
Nei, í bænum Solvang í Kaliforníu.
Þar settust Danir að snemma á síðustu öld og bærin ber allur danskt yfirbragð.
Það er mikið af bakaríum, og þar sér maður hvað Danir hafa haft mikil áhrif á Íslandi.
Bakkelsið er það sama og í bakaríum á Íslandi – sérbökuð vínarbrauð, svokallaðar franskar vöfflur, napóleonshattar, rúllutertur.
Þetta er afar huggulegur lítill bær –maður gæti eiginlega verið á Jótlandi eða Fjóni nema hvað umhverfið er nokkuð hæðótt – og bærinn nýtur sögu sinnar. Það er hún sem dregur gesti að.
Í nútímasamfélagi getur sagan verið mikil verðmæti – eins og sjá má til dæmis á Siglufirði. Um daginn komum við til Monterey sem er eins konar spegilmynd Siglufjarðar. Þetta þarna voru miklar fiskveiðar á árum áður og verksmiðjur þar sem sardínur voru soðnar niður í dósir. Því er lýst í bókum Johns Steinbeck. Nú er þessi iðnaður fyrir bí, en til Monterey streyma ferðamenn í stórum stíl í söfn og búðir sem eru kenndar við Cannery Row – en það var einmitt titillinn á einni bók Steinbecks.
Monterey minnir talsvert á Siglufjörð. Í báðum bæjunum lifa minningar um miklar fiskveiðar og fiskvinnslu sem draga ferðamenn að.