fbpx
Mánudagur 01.september 2025
Eyjan

Fjármögnunarleigusamningar eru ólögleg lán

Egill Helgason
Þriðjudaginn 26. apríl 2011 17:11

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Elías Pétursson er höfundur þessarar greinar:

— — —
Sæll Egill,

Þann 19 apríl síðastliðinn var felldur enn einn dómurinn vegna gengistengdra lána, dómur sá er um ólögmæti gengistengdra fjármögnunarsamninga, og er að mínu mati einn sá merkilegasti sem enn hefur fallið. Finnst mér um margt furðulegt hve lítið hefur verið um hann fjallað í fréttum. Það hafa svo sem verið tekin viðtöl við Árna Pál efnahags- og viðskiptaráðherra þar sem hann dregur úr mikilvægi dómsins, og eða ruglar út og suður eins og honum er svo vel lagið.

Mér finnst það merkilegasta sem frá ráðherranum hefur komið vera í frétt á Vísi.is þar sem hann segir  „„Þetta er innan þess ramma sem Fjármálaeftirlitið gerði ráð fyrir að gæti fallið í fyrrahaust. Þá hafði Fjármálaeftirlitið gefið út greiningu þar sem flokkuð voru þau lán þar sem væru umtalsverðar líkur á því að gætu fallið,“ segir Árni Páll. Þar hafi verið um að ræða 50 milljarða högg fyrir fjármálafyrirtækin í tilviki heimilanna og 58 milljarðar í tilviki fyrirtækjanna.“

Í fréttinni virðist ráðherrann vera að segja okkur að hann og Fjármálaeftirlitið hafi vitað að þessi lán væru jafnólögleg og önnur en ákveðið að gera ekkert í því. Ein athugasemd af mörgum sem gerðar voru er fréttin birtist á Eyjunni rammaði málið ágætlega inn… „Sem sagt þá gerir ráðherra ráð fyrir að margir hlutir séu ólöglegir en gerir ekkert í því sjálfur né lætur stofnanirnar gera neitt í málunum í þeirri von að ekki komi dómur knúinn fram af einhverjum einstaklingum ???“

Það sem er því fréttnæmast og um leið sorglegast við þennan dóm er að margir fleiri en Fjármálaeftirlitið hafa orðið til að segja ráðherranum að óvissa ríkti, en hvorki hann né aðrir innan stjórnkerfisins hafa hlustað á eða aðhafst. Á meðan hafa fyrirtæki í tuga eða hundraðatali verið eyðilögð af fjármálafyrirtækjunum. Þetta hefur verið gert með því að svipta fyrirtækin tækjum og tólum sem voru fjármögnuð með gengistengdum lánum. Lánum sem í mörgum tilvikum voru að miklu leyti uppgreidd þegar svipting átti sér stað.

En nóg um ráðherrann sem heldur því sífellt fram að hann sé að gæta „almannahagsmuna“, en virðist frá mér séð telja hagsmuni fjármálafyrirtækjanna „trompa“ hagsmuni almennings og smærri fyrirtækja.
Eins og þú veist þá þá rak ég fyrirtæki sem hlaut ekki náð fyrir augum þeirra starfsmanna fjármögnunarfyrirtækjanna sem ákváðu hverjir fengju að lifa og hverjir skildu afhausaðir í kjölfar stökkbreytingar lána og ca 85% hruns á verkefnaframboði í þeim jarðvinnuverktakabransa sem ég ungur valdi mér sem starfsvettvang. Í okkar tilviki voru tækin tekin fyrrihluta árs 2010. Þrátt fyrir að við hefðum í lok árs 2009 greitt nánast jafnháa fjárhæð og höfuðstóll samninganna var í upphafi árs 2008, í framhaldinu féll fyrirtækið. Enda gömul sannindi að bóndi rekur ekki sitt bú ef kýrnar eru teknar af honum og fjósið látið standa tómt, það sama á við um vélalausan verktaka.

Oft sátu fjármögnunarfyrirtækin hjá og gerðu „ekkert nema“ leysa til sín vélar og tæki. Lífeyrissjóðir og hið opinbera óskaði eftir gjaldþrotaskiptum eftir að fjárstreymi stöðvaðist algjörlega í tækjalausum fyrirtækjunum. Því verður örugglega spurt, hver setti þessi fyrirtæki í þrot? Og hver er ábyrgð forsvarsmanna og starfsmanna fjármögnunarfyrirtækjanna sem þrátt fyrir allskonar ábendingar ákváðu að framkvæma óafturkræfa eyðileggingu á fyrirtækjum?

Við þennan dóm vakna sem sé spurningar. Hvað með alla þá sem hafa verið hraktir í gjaldþrot vegna samninga sem nú hafa verið dæmdir ólöglegir ? Af hverju var dómurinn ekki fjölskipaður þegar fjallað er um milljarða viðskipti og hagsmuni. Af hverju dró Lýsing sig út úr málinu á seinni stigum þess? Ætla fjármögnunarfyrirtækin að fara eftir þessum dómi? Ætla þau í fleiri dómsmál, berjast „CASE BY CASE“ þrasandi um einstök orð, kommur og punkta í samningunum.

Er hægt að vinda ofan af tveggja ára atburðarás þar sem hundruð fjölskyldna sitja eftir í skuldasúpu, eignalausar og þrotnar krafti?

Já, nú stöndum við og veltum því fyrir okkur hver muni gæta að þeim sem eru búnir að tapa tækjum og lífsstarfi. Fátt virðist nefnilega um möguleika til þess að sækja rétt sinn, því ef fyrirtækin sem fólk hefur af eljusemi byggt upp eru farin á hausinn þá hafa fyrrum eigendur mjög takmarkaða aðkomu að málum. Undantekning er þó ef eigandinn gekkst í ábyrgðir, þá er fjármögnunarfyrirtækið og eða aðrir á fullu við að innheimta ætlaðar skuldir. Skuldir sem í mörgum tilvikum urðu til vegna óbilgirni þeirra fyrirtækja sem nú hafa verið dæmd.

Ekki má gleyma því að eftir er að taka málið fyrir í Hæstarétti, og sjálfsagt munu stjórnvöld leggjast á sveif með fjármögnunarfyrirtækjunum nú eins í þau gerðu svo grímulaust í aðdraganda dóms sem upp var kveðin í fyrrahaust. Kannski ég geti þá endurnýtt grein sem ég skrifaði í undir fyrirsögninni  Að sitja alltaf uppi með Svarta-Pétur.

En kannski breytist allt núna, og kannski eitthvað sé farið að molna úr skjaldborg stjórnvalda um fjármagnseigendur, fjármögnunarfyrirtæki og banka.

Kannski það sé bjart framundan….. kannski ekki.

24.04 ´11
Elías Pétursson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Hraðinn og nálægðin við viðskiptavininn er það sem heillar við smásöluna

Hraðinn og nálægðin við viðskiptavininn er það sem heillar við smásöluna