Eins og ég benti á í fyrri færslu hefði verið samræmi í því ef Ólafur Ragnar Grímsson hefði skotið nýju fjölmiðlalögunum til þjóðarinnar. Hann neitaði að staðfesta fyrri fjölmiðlalög árið 2004. Þegar hann neitaði að skrifa undir Icesave samninginn nú í janúar notaði hann einmitt þau rök að fyrri samningi hefði verið skotið til þjóðarinnar og því væri eðlilegt að hún kláraði málið.
Þetta voru ein veigamestu rökin hans, þau sem hann lagði mesta áherslu á.
Nú kemur á daginn að Ólafur Ragnar hefur ekki hikað við að undirskrifa lögin. Hann gerði það í snarhendingu eftir að þau voru samþykkt án þess að gera nokkra grein fyrir málinu.
Þetta getur einmitt verið veikleikinn í þessu.
Umdeild lög koma á eftir öðrum umdeildum lögum.
Fjölmiðlafrumvarpið fékk litla umfjöllun vegna þess að á sama tíma var Icesave í gangi og eftir það vantraustsstillagan á ríkisstjórnina.
Það söfnuðust ekki margar undirskriftir gegn frumvarpinu. En kannski hefði verið hægt að safna 30 þúsund undirskriftum strax eftir páska – ef umræðan um lögin hefði komist almennilega af stað.
Ólafur Ragnar tók sinn tíma til að velta fyrir sér hvort hann ætti að skrifa undir Icesave og á meðan streymdu undirskriftirnar inn. Hann átti fund með forsvarsmönnum undirskriftasöfnunar gegn Icesave. Hann flýtti sér hins vgar að undirskrifa fjölmiðlalögin.
Viðmiðin eru satt að segja ansi óljós.