Það er sérstæð afstaða Ögmundar Jónassonar að vegna þess að hann fari með innanríkisráðuneytið – áður dómsmálaráðuneytið – eigi hann ekki að tjá sig um Icesave.
Maður hefur aldrei heyrt það áður að þótt dómsmálaráðuneyti fari formlega séð með framkvæmd kosninga þá eigi dómsmálaráðherrann ekki að taka afstöðu til þess sem kosið er um.
Sá kvittur hefur komið upp að Ögmundur ætli að greiða atkvæði gegn Icesavesamningnum á morgun. Hann greiddi atkvæði með samningnum í þinginu. Ögmundur skrifar langa grein á vef sinn en hefur ekki fyrir því að bera þetta til baka, heldur beitir fyrir sig ofangreindri röksemdafærslu.
En það hlýtur að vera sjálfsagt að stjórnmálamaður í stöðu Ögmundar skýri frá því hvernig hann ætlar að kjósa. Að minnsta kosti finnst manni líklegt að kjósendur VG vilji vita það.