Eins og áður er komið fram verður rætt við Gyrði Elíasson í Kiljunni í kvöld. Einnig verður sýndur bútur úr viðtali við Gyrði frá því í kringum 1990, það efni hefur aldrei verið sýnt.
Kristín Steinsdóttir rithöfundur kemur í þáttinn og segir frá hljóðdiskum sem eru komnir út með frásögnum hennar í Þýskalandi. Diskarnir eru gefnir út hjá forlagi sem nefnist Supposé og nefnast Lífið í fiskinum. Þeir hafa komist á metsölulista yfir hljóðdiska í Þýskalandi, en þetta er með eindæmum falleg og vönduð útgáfa.
Við förm í bókabúð Eymundsonar í Hafnarstrætinu á Akureyri en þetta er eitthvert flottasta verslunarhúsnæði á Íslandi, með risastórum gluggum sem vísa út á götuna, enda var þarna forðum tíð hið glæsilega verslunarhús Kaupfélags Eyfirðinga. Þarna má segja að hjartað í bæjarlífinu á Akureyri slái nú. Þarna eru ýmis merki um gömlu verslunina sem hafa verið að koma fram síðustu árin, eins og Sædís Hilmarsdóttir verslunarstjóri segir okkur frá.
Kolbrún og Páll fjalla um þrjár skáldsögur, þær eru: Sigurðar saga fóts eftir Bjarna Harðarson, Hringurinn lokast eftir Michael Ridpath og Maður í myrkri eftir Paul Auster.
En Bragi talar meðal annars um þann mikla merkismann Konrad Maurer.
Konrad Maurer var lögfræðingur og sagnfræðingur sem hafði óbilandi áhuga á Íslandi, ferðaðist hér um 1858 ritaði bók um það. Hann var sérfróður um stjórnskipan Íslands og veitti Jóni Sigurðssyni ýmis ráð í sjálfstæðisbaráttunni.