Nokkur hneykslunaralda gengur yfir samfélagið vegna framgöngu Samtaka atvinnulífsins í kjaraviðræðum.
Samtökin eru á mjög skrítinni vegferð – og í sumum málum teyma þau á eftir sér Alþýðusamband Íslands.
SA vill fá að ráða því hvernig fólk greiðir atkvæði í Icesave, þeir vilja stjórna því hvernig atvinnulíf verður byggt upp hérna og þeir vilja líka ákveða hvernig fiskveiðistjórnun verður háttað.
Nýjasta útspilið er að gera ekki kjarasamninga nema kvóta sé úthlutað til 35 ára með sjálfvirku ákvæði um framlengingu.
Svo vilja samtökin helst ekki þurfa að bera neinn kostnað af kjarasamningum, heldur reyna að demba því öllu á ríkisvaldið sem á koma með nógu veglega „pakka“ til að leysa kjaraviðræðurnar.
Þarna er virðist verkalýðshreyfingin vera fullkomlega samstíga
Ein krafa ASÍ var svo að ríkið færi að greiða fé til að bæta upp tap lífeyrissjóða sem töpuðu í bankahruninu.
Það er hins vegar ljóst, og lýsir því hvernig umræðunni er háttað í samfélaginu, að ýmsir sem hneykslast á yfirlýsingum SA vegna Icesave munu ekki verða hneykslaðir á framgöngu samtakanna varðandi stjórnun fiskveiða – og öfugt!
Svo dregur hver sinn vagn.