Ég er dálítið kaffisnobb. (Jú, mér hefur verið núið um nasir að vera lattemaður.)
Ég drekk til dæmis eiginlega aldrei uppáhelling. Og það eru áratugir síðan ég hætti að þamba vont kaffi í vinnunni. Og það er aldrei kaffi á könnunni heima hjá mér. Ég drekk heldur ekki mikið kaffi, einn bolla á morgnana og einn síðdegis.
Helst drekk ég ekki kaffi nema á þessum fínu kaffistöðum sem hafa sprottið upp hér síðustu áratugina. Ég byrjaði á Mokka, það er einstakur staður, en nú fer ég oftast á Kaffifélagið við Skólavörðustíg.
Þetta er við skemmtilegustu götuna í bænum, kaffið er mjög gott – og þeir passa að setja ekki of mikla mjólk út í það.
Ég er mjög feginn að fréttin um að Valgeir Guðjósson, sá frábæri tónlistarmaður, ætlaði að opna Starbuck´s á Íslandi, reyndist vera aprílgabb. Ég trúði þessu smástund, fussaði dálítið og sveiaði.
Við þurfum nefnilega ekki Starbuck´s í Reykjavík.
Hér eru út um allt kaffistaðir sem eru miklu betri en Starbuck´s, íslenskir staðir: Kaffismiðjan, Café Haiti, Te & kaffi, Kaffitár, já og áðurnefnt Kaffifélag.
Kaffið er betra og ekki sama stöðlunin í gangi – jú, og ekki jafnmikið mjólkurþamb. Starbuck´s byggir mjög á þeim bandaríska sið að hella einhverjum ósköpum af mjólk út í lítinn kaffisopa. (Ég er nefnilega ekki svo mikill lattemaður þegar allt kemur til alls.)
Kaffimenningin á Íslandi er á svo háu plani að ég sakna hennar þegar ég fer til útlanda. Það er erfiðara að fá gott kaffi í London og New York en í Reykjavík. Já, þetta er eiginlega á heimsmælikvarða hjá okkur.
Í Grikklandi er kaffið ekki sérlega gott, en ég mun samt ekki færa mig yfir til Ítalíu vegna þess.