Við Kári vorum að spá í aprílgöbbum þegar við vorum að keyra í bílnum í gær. Hann skildi ekki alveg út á hvað aprílgöbb ganga, svo fattaði hann það.
Fann upp á einu sniðugu – að birta fréttir um að Justin Bieber væri kominn til landsins. Þá sagði hann að mörg smápían myndi titra – ég held hann hafi til dæmis átt við eldri systur vina sinna.
Svo opnuðum við DV í morgun og viti menn: Í blaðinu stóð að Justin Bieber væri væntanlegur til landsins og ætlaði að vera í Bláa lóninu í dag.
Ég veit að DV stundar mjög harðdræga fréttaöflun, en ekki vissi ég að þeir væru farnir að hlera bílinn minn.
Það voru fleiri aprílgöbb í fjölmiðlunum í morgun, mér fannst Mogginn dálítið sniðugur þegar hann skrifaði að gullskipið væri farið að koma upp í Landeyjarhöfn. Það er eiginlega bara tímaspursmál hvenær það gerist.
Og svo er nátturlega fullt af fréttum í dag eins og aðra daga sem maður veit ekki hvort eru aprílgöbb.