Við búum í veröld sem er ekkert sérlega réttlát.
Í fjölmiðlum hefur verið fjallað um mál tveggja kvenna, Jussanam Dejah frá Brasilíu og Priyanka Thapa frá Nepal.
Báðar hafa þær getið sér gott orð á Íslandi, eru góðir borgarar, en samt er mikil tregða í kerfinu við að veita þeim varanlegt landvistarleyfi.
Manni finnst það satt að segja ansi skítt.
Maður hlýtur að álykta að reglur séu túlkaðar of þröngt eða að kerfið sé hrætt við að setja fordæmi – því varla er það af einhverri mannvonsku að þær fá ekki lausn sinna mála.
Svo er fjallað um mál tíu auðmanna sem vilja fá íslenskan ríkisborgararétt.
Það mál er allt hið skringilegasta.
En þetta er samt ekki einsdæmi. Við erum ekki ein í heiminum. Því það er frægt að asni klyfjaður gulli kemst í gegnum marga múra.
Í löndum eins og Bandaríkjunum, Bretlandi, Sviss – já, og miklu víðar – er það þekkt að ríkt fólk á auðveldara með að fá landvist en snautt.