Í Kiljunni í kvöld förum við til Siglufjarðar og hittum þar þúsundþjalasmiðinn og athafnamanninn Örlyg Kristfinnsson. Örlygur er myndlistarmaður og safnstjóri á hinu stórkostlega Síldarminjasafni, en hann fæst líka við ritstörf og sendi nýlega frá sér bókina Svipmyndir úr síldarbæ. Örlygur leiðir okkur um hina sögufrægu Aðalgötu á Siglufirði sem iðaði af lífi á síldarárunum og þar sem voru knæpur, danshús og bíó og svo kristileg samkomuhús til að sporna á móti sollinum.
Við fjöllum um Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna sem voru veitt á sunnudag, og fáum í þáttinn tvo verðlaunahafa, þær Völu Þórsdóttur og Agnieszku Nowak.
Kolbrún og Páll Baldvin tala um þýddar skáldsögur, Þannig er lífið núna eftir Meg Rosoff, Hina dauðu eftir Vidar Sundstöl og Djöflastjörnuna eftir Jo Nesbö.
En Bragi talar meðal annars um Árna Pálsson.