Ég fékk bréf frá vini mínum sem ég tek mikið mark á.
Hann var að kvarta undan því hvernig umræðan á Íslandi væri eyðilögð með ómerkilegheitum.
Hann tók dæmi af Icesave, benti á eins og satt er að það séu ýmis rök í málinu, bæði með og á móti.
„Í nafnlausum pistlum á netinu og í fjölmiðlum er fólk óþjóðhollir aumingjar og landráðamenn ef það er já-megin í Icesave-málinu en hjá dólgabloggurum hinum megin er það siðlausar þjóðrembur ef það er nei-megin. Sjálfur hef ég skipt þrisvar um skoðun í málinu – og á sennilega eftir að gera það aftur áður en yfir lýkur – en tel mig samt ekki verðskulda fyrrgreindar lýsingar. Mér finnst gild rök liggja beggja megin í málinu þegar búið er að skafa öskrin í burtu. Getur venjulegt fólk ekki fengið að gera upp hug sinn í umdeildum málum í friði fyrir svona skætingi og skítkasti?“