Samtök foreldra, kennarar og skólastjórnendur geta ekki fellt sig við niðurskurð í grunnskólunum. Ég á dreng í grunnskóla og mér eru að berast harðorðar yfirlýsingar vegna niðurskurðartillagnanna.
Það er úr vöndu að ráða.
Menn þurfa að skoða nokkur atriði.
Þarf að skera niður á þessu skólastigi? Er það óhjákvæmilegt? Er staða borgarsjóðs svo slæm?
Ef svarið er já – þá hljótum við að eiga heimtingu á að umræðan sé málefnaleg, fari ekki bara fram í upphrópunum.
Það hafa verið færð góð rök fyrir því að flatur niðurskurður sé slæmur. Hann muni gera allt skólastarfið slappara. Flatur niðurskurður er að nokkru leyti leið hins huglausa – þess sem þorir ekki að takast á við hinn raunverulega vanda.
Þá er spurningin hvernig er hægt að endurskipuleggja hlutina – hvað er hægt að fella burt?
Það hefur verið bent á að það sé mögulegt að stytta skólaárið aðeins án þess að af því hljótist sérstakur skaði – sem foreldri skóladrengs held ég að það sé rétt. Því miður gengur of mikið af skólastarfinu og starfinu á frístundaheimilum út á að hafa börnin í vistun, geyma þau á vísum stað meðan foreldarnir eru í vinnu.
Það hefur verið rætt um kjarasamninga kennara og starfskjör þeirra – að þau séu alltof flókin og að það sé erfitt við þau að eiga þegar ráðist er í endurskipulagningu.
Svo er spurningin um að taka einhvern þátt út úr skólastarfinu, eitthvað sem má helst missa sín.
Mér var bent á sundkennsluna. Grunnskólabörn fara í sundkennslu á hverju ári. Í kringum sundið er mikill akstur, rútur fara með börn til og frá skólum. Þar sem ég þekki til eru aðeins hálfur bekkurinn í sundi í einu – það þýðir að hinn helmingurinn nýtur kennslu á meðan. Þetta er mjög kostnaðarsamt.
Börn þurfa auðvitað að læra að synda – en þetta er fyrirkomulag sem mætti hugsanlega endurskoða. Hérlendis er sundlaugar út um allt, mætti hugsa sér að hafa sundnám á öðrum tíma og að foreldrar bæru meiri ábygð á að koma börnunum þangað?
Það hefur líka verið talað um skólamatinn. En við getum varla boðið börnum upp á að vera í skóla og síðan á frístundaheimili í 8-9 tíma á dag án þess að þau fái almennilegan mat. Hins vegar er hætt við því að ef farið er að skera niður um einhver prósent í skólamatnum þá verði hann óboðlega vondur – og er hann alls ekki til fyrirmyndar eins og er.