Milljónir drengja út um allan heim stefna að því að verða atvinnuknattspyrnumenn. Ég segi drengja – því knattspyrnuferill stúlkna er allt öðruvísi. Þær fá ekki ofurlaun og oft stunda þær háskólanám meðfram fótboltanum – ná sér semsagt í góða menntun. Það á ekki við um drengina.
Fótboltinn er harður heimur. Örfáir ná alla leið, verða moldríkar stjörnur og geta lifað af því allt sitt líf. Þeir eru fleiri sem komast kannski ekki lengra en rétt svo meistaraflokk á Íslandi þrátt fyrir allt erfiðið – þrotlausar æfingar og ástundun.
Ferillinn er heldur ekki langur, fótboltamaður telst góður ef hann er enn að spila í efstu deild þegar hann er 35 ára. Tíminn á toppnum er varla nema svona 15 ár.
Og það eru margir óvissu- og áhættuþættir, meiðsl, álag, röng þjálfun, og svo er það andlega hliðin.
Í dag var tilkynnt að brasilíski knattspyrnumaðurinn Ronaldo væri hættur. Hann er 34 ára.
Ronaldo var um tíma talinn besti fótboltamaður í heimi. Litlir drengir gengu í gulum Brasilíutreyjum með nafni hans.
Svo kom eitthvað fyrir Ronaldo, hann missti sjálfstraustið. Var í raun aldrei samur eftir. En hann átti líka við meiðsli að stríða.
Það er til bók eftir Peter Handke sem nefnist Ótti markmannsins við vítaspyrnu – Wim Wenders gerði samnefnda kvikmynd.
En það er líka hægt að tala um óttta framherjans. Þeir eru ýmsir framherjarnir sem hafa misst máttinn og hætt að skora.
Frægt dæmi er til dæmis Michael Owen, annar er Andrei Sevtsjenko – og svo er það Fernando Torres.
Við sáum hann í HM í sumar, þar fór leikmaður sem var búinn að missa sjálfstraustið – þegar framherjar eiga í hlut er undir hælinn lagt að þeir fái það aftur. Gæti verið að Chelsea hafi gert vitleysu þegar félagið keypti þennan leikmann?