Franskur vinur minn, Jacques Mer, var eitt sinn sendiherra á Íslandi. Eftir að hann lét af störfum skrifaði hann heilmikið um íslensk málefni. Hann býr nú í Lille, en illu heilli er þessi gáfaði og kraftmikli maður orðinn heilsuveill.
Meðal þess sem Jacques Mer velti fyrir sér var forsetaembættið íslenska.
Þá var Vigdís Finnbogadóttir ennþá forseti og það var orðin hefð, allt frá dögum Ásgeirs Ásgeirssonar að alvöru kandídatar byðu sig ekki fram á móti sitjandi forseta.
Mer hugleiddi hvers konar embætti þetta væri þá og stakk upp á því að þetta væri nokkurs konar konungdæmi án kórónu – Vigdís væri semsagt reine sans couronne.
Þessi hefð hefur haldið áfram. Enginn hefur nokkurn tíma boðið sig fram gegn Ólafi Ragnari Grímssyni sem gæti átt nokkra möguleika á að sigra hann. Framboðin á móti honum hafa verið skrítin og sérviskuleg.
Forsetar eru kjörnir í lýðræðislegri kosningu, en það þykir óeðlilegt að bjóða fram gegn þeim. Það er ákveðin þversögn.
Ég held að þetta hljóti að vera nokkuð einstætt. Í Finnlandi situr forseti sem hefur meiri völd en íslenski forsetinn, seta hans er bundin við tvö sex ára kjörtímabil. Í Þýskalandi kýs þingið forseta, hann er einungis tákrænn og má sitja í tvö fimm ára tímabil. Írar hafa forseta, hann hefur táknrænt hlutverk, og má sitja í tvö sjö ára tímabil.
Við getum síður borið okkur saman við önnur nágrannalönd, Norðurlöndin utan Finnlands og Íslands eru konungdæmi – þar sem kóngafólkið er algjörlega valdalaust – en í Frakklandi situr forseti sem hefur svipuð völd og forseti Bandaríkjanna.