Í forsíðugrein The Economist er fjallað um stefnuræðu Baracks Obama sem olli vonbrigðum vegna þess hvað hún er máttlaus.
Blaðið útlistar hvað bandaríska hagkerfið er í hrikalegum vandræðum. Atvinnuleysið er 9,4 prósent segja opinberar tölur, en í greininni er fullyrt að sú tala sé í raun tvöföld.
Þótt einhver efnahagsbati sé merkjanlegur, þá kemur hann ekki fram í fjölgun atvinnutækifæra.
Fjárlagahallinn er tíu prósent og nú þegar „baby boomer“ kynslóðin er að fara á eftirlaun og þarf sína heilsugæslu eru varla líkur á að hann lækki.
Meðan grotna innviðir Bandaríkjanna niður. Sum ríkin eru gjörsamlega á hausnum eins og er lýst á forsíðumynd Economist. Það er almennt viðurkennt að ríkisskólar séu meira og minna ónýtir – blaðið getur þess að frammistaða bandarískra barna í stærðfræði sé mjög léleg.
Repúblíkanar vilja skera niður – alls staðar nema í hermálum – Demókratar vilja eyða peningum í fjárfestingar. Þessir flokkar geta varla talað saman, þannig er ástandið í stjórnmálunum. Á meðan eru það helst hinir ofurríku sem hafa sitt á þurru enda á stórkapítalið þá með húð og hári. Áður fyrr var fátæka fólkið aðallega lengst upp í sveit eða í gettóum stórborga, en nú eru farin að verða til úthverfi þar sem fólk lifir við mikla fátækt eins og sagt er frá í þessari grein sem líka birtist í Economist.