Söngvarinn Placido Domingo er sjötugur í dag. Hann er einn mesti tónlistarmaður sem er uppi, afrekalistinn er hreint ótrúlegur. Domingo var fæddur á Spáni en alinn upp í Mexíkó þar sem hann nam fyrst píanóleik. Söngferill hans hófst 1957, fyrst söng hann í Mexíkó, en 1968 söng hann sitt fyrsta hlutverk í Metropolitanóperunni í New York. Síðan er hann bundinn því húsi mjög sterkum böndum, enginn söngvari hefur opnað tímabilið þar oftar en hann.
Domingo hefur sungið 128 óperuhlutverk á ferli sínum, og síðustu árin hefur hann enn verið að bæta við sig hlutverkum þrátt fyrir aldurinn. Hann hefur hljóðritað allar óperur Verdis, en fjölhæfni hans er slík að hann syngur líka í Wagner. Auk þess hefur Domingo fengist við hljómsveitar- og óperustjórn – hann er listrænn stjórnandi óperuhúsanna í Washington og Los Angeles.
Síðustu árin hefur Domingo sungið mikið í Wagnersóperum, meðal annars í Niflungahringnum og Tristan og Ísold. Hér er hann í hinum stórkostlega þriðja þætti Parsifals:
[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=RcU7Kr5Rg_I&feature=related]