Handboltamaðurinn Alfreð Gíslason hafði miklar áhyggjur af því í sjónvarpsviðtali að „það yrði flætt yfir okkur“ ef við gengjum í Evrópusambandið.
Slíkur yrði straumur fólks hingað.
Hann virtist ekki vita að hingað hefur verið frjáls för Evrópubúa í mörg ár vegna EES og Schengen – og að innflutningur vinnuafls hingað náði hámarki fyrir nokkrum árum en hefur minnkað síðan.
Og að útlendingar hafa í stórum stíl verið að vinna störf sem við Íslendingar kærum ekki um, ekki einu sinni á tíma atvinnuleysis.
Á móti kemur til dæmis að fimmtán íslenskir handboltamenn leika í efstu deild í Þýskalandi og þar eru líka tveir íslenskir þjálfarar.
Þessir íþróttamenn geta farið á milli eins og ekkert sé – einmitt vegna Evrópusamninga.
Þetta er heldur ekkert smáræði, sé talan fimmtán rétt – hana hef ég úr íþróttafrétt sem ég fann á vefnum – samsvarar það því, miðað við höfðatölu, að meira en sex þúsund Rússar væru að spila handbolta í efstu deild í Þýskalandi.