Internetið gerir heiminn merkilega lítinn stundum.
Ég hitti kunningja minn Smára McCarthy á Skólavörðustígnum.
Hann er mikill netmaður, stóð ásamt fleirum fyrir komu Julians Assange til Íslands á sínum tíma.
Við fórum að tala um Túnis og Smári sagði mér að í gær hefði kunningi hans þar orðið ráðherra í nýrri ríkisstjórn landsins.
Ráðherrann heitir Sidi Amamou, þeir þekkjast reyndar bara af netinu. Smári hafði hjálpað honum að komast fyrir ritskoðunina sem hefur ríkt í Túnis. Hann er reyndar kallaður Slim og er úr svokölluðum Sjóræningjaflokki, er líka bloggari og netverji. Slim var fangelsaður um tíma fyrir skoðanir sínar.
En þetta eru merkilegir atburðir í þessu litla landi við Miðjarðarhaf sem hingað til hefur verið frekar friðsælt. Þarna hefur ríkt aðskilnaður milli ríkis og trúar – í anda landsföðursins Bourgiuba sem ríkti lengi og varð fjörgamall.
Um leið hefur orðið til mikil spilling á æðstu stöðum og nú er sagt að burtrekinn forseti landsins, Ben Ali hafi tekið með sér gullforðann í útlegðina til Saudi-Arabíu. Líklega fæst hann seint afhentur úr því spillingarbæli.
Þessir atburðir gerast í heimshluta þar sem ástandið er býsna viðkvæmt. Ein hættan er sú að íslamistar færi sig upp á skaftið. Svo er möguleiki á að átökin breiðist út til nálægra landa. Þar eru helst Alsír – þar sem tvívegis hafa geisað blóðug borgarastríð síðustu sextíu árin – einræðisríkið Líbýa og svo Egyptaland sem er sannkallaður suðupottur. Þar trónir hinn aldraði Hosni Mubarak yfir hernaðareinræði, heldur íslamistum niðri en líka þeim sem kalla á aukið lýðræði.
Sidi Amamou, kunningi Smára sem ég hitti á Skólavörðustígnum. Hann er nú orðinn ráðherra í stjórn Túnis.