Ég er á því að fátt hafi fegrað þetta land meira en aspirnar sem hafa vaxið hér síðustu áratugina.
Munum að fyrir 1950 var Reykjavík gróðurvana melur. Myndir frá því fyrir þann tíma sýna byggð með húsum, en það eru engin tré.
Amma mín var frá Noregi. Hún kom fyrst til Íslands 1928. Það sem henni fannst skrítnast var skorturinn á trjágróðri. Stundum gekk hún upp á Grettisgötu til að skoða tré sem var þar.
Þarna hefur orðið algjör bylting. Reykjavík er orðin fallega gróin borg. Trjágróðurinn veitir skjól – hann er ein ástæðan fyrir batnandi veðurfari í borginni. Af trjánum er góð lykt á vorin, ekki síst af öspunum á Laugaveginum.
Auðvitað eru til hreinstefnumenn sem vilja ekkert nema birki, telja að allt annað sé útlendur gróður. Það má svosem til sanns vegar færa, en þá má líka benda á að öll erum við meira og minna aðskotadýr í þessu landi.
Nema tófan sem var hér fyrir landnám – og smaug þá um birkiskóginn sem fyrstu kynslóðir Íslendinga eyðilögðu.