Guardian birtir skemmtilega samantekt þar sem rithöfundar eru spurðir um ráð til að skrifa.
Elmore Leonard segir að maður eigi að vara sig á lýsingarorðum og ekki nota orðið „skyndilega“.
Margaret Atwood ráðleggur bakæfingar.
Roddy Doyle segir að maður eigi ekki að setja mynd af uppáhaldsrithöfundinum sínum á skrifborðið. Hann segir líka að maður eigi að skrifa eins hratt og maður getur þangað til kemur að blaðsíðu 50, þá eigi maður að staldra við og fara að tékka á gæðunum.
Geoff Dyer ráðleggur mönnum að forðast Nabokov en Helen Dunmore mælir með gönguferðum.
Richard Ford segir að höfundar ættu ekki að eignast börn og ræður þeim frá því að lesa gagnrýni um eigin verk. Hann segir líka að þeir eigi ekki að óska kollegum sínum ófarnaðar.
Jonathan Franzen mælir með því að höfundar skrifi í þriðju persónu nema þeir finni sérlega áhugaverða fyrstu persónu rödd.
P.D. James segir að höfundar eigi að lesa mikið en vanda valið. Vondar bækur séu smitandi.