Það er rétt að stjórnmálaumræða í Bandaríkjunum er óþolandi hatursfull.
Og að Sarah Palin er ekki sérlega geðslegur stjórnmálamaður – og sömuleiðis Glenn Beck.
En að kenna þeim um morðárásina í Arizona á laugardag er dálítið langt gengið.
Í raun er það ekki síður ógeðfellt en málflutningurinn sem þau eru sökuð um. Strax eftir atburðinn var farið að tengja Palin við hann.
En í raun og veru eru þessi tengsl ekki sýnileg – það er nákvæmlega engin sönnun fyrir því að umtöluð skotskífuauglýsing Palin hafi haft áhrif á morðingjann.
Bandaríkjamenn mættu kannski fremur spyrja sig spurninga um hina almennu byssueign í landinu. Hún er meginástæðan fyrir hinni háu morðtíðni í landinu. Hinum megin við landamærin í Kanada eru byssur ekki á almannafæri og morð eru miklu færri. Þeir sem hyggja á morð og ofbeldisverk geta með auðveldum hætti komist yfir skotvopn.
Það hefur komið fram að þingkonan sem var skotin, Gabrielle Giffords, hafi verið mótfallin takmörkunum á byssueign. Sjálf var hún eigandi Glock skammbyssu eins og morðinginn Jared Loughner. Palin er líka byssuóð og lætur taka myndir af sér með skotvopn. Í Bandaríkjunum þykir það sjálfsagt. Hvar annars staðar í vestrænu samfélagi þykir eðlilegt að fólk í þessari stöðu eigi skammbyssur og tali um það opinberlega?
Skotskífuauglýsing Palin. Hún er kannski ekki geðsleg, en ekkert hefur komið fram sem tengir morðingjann, Jared Loughner, við hana.