Ég held það sé öruggt hvaða kvikmynd og hvaða leikari fær Óskarsverðlaun.
Það verður The King´s Speech með Colin Firth í aðalhlutverki.
Bandaríkjamenn eru óðir í myndir sem fjalla um breskt kóngafólk, að minnsta kosti akademían sem veitir Óskarsverðlaunin.
Það mun ekki breyta neinu að myndin er sagnfræðilega mjög vafasöm og að kóngur þessi, Georg VI þótti með eindæmum þurr og leiðinlegur og sagði aldrei neitt skemmtilegt eða áhugavert í lífi sínu.
En hann átti heldur aldrei að verða kóngur, hann þurfti að taka við þegar bróðir hans Játvarður VIII gekk úr skaftinu og giftist fráskildri konu. Sá gerðist sérlegur áhugamaður um nasisma.
Dóttir Georgs VI hefur nú ríkt sem drottning í 58 ár. Það er býsna langur tími. Með þessari löngu valdatíð hefur hún styrkt konungdæmið. Það er deilt um hvort sonur hennar Karl (sem er sjálfur fráskilinn og giftur fráskildri konu) eigi að taka við eða hvort hoppað skuli yfir kynslóð og Vilhjálmur prins gerður að konungi.
Karl þykir með eindæmum leiðinlegur náungi en sonurinn er sagður hafa smá glamúr frá móður sinni Díönu. Í Bandaríkjunum má sjá í bókaverslunum sérstök tímarit um Wills og Kate – eins og þau eru kölluð – Vilhjálm og unnusta hans.
En þegar grannt er skoðað líkist strákurinn pabba sínum æ meir.