Ég var í New York og þar snjóaði helling milli jóla- og nýárs. Þetta var sagður vera sjötti versti snjóbylur sem hefur gengið yfir borgina.
Þetta hafði sínar skemmtilegu hliðar, fólk var á skíðum og sleðum í Central Park fram yfir áramót. Og svo voru vandræðin, sorphirða fór úr skorðum og ruslapokar hrúguðust upp, snjóruðningar við götur voru orðnir skítugir og ógeðslegir.
Mér varð hugsað til Frank Zappa lagsins Don´t Eat the Yellow Snow.
Það snjóaði aftur á föstudaginn en snjóinn festi ekki alveg á götunum.
Svo kemur maður heim og það er janúar og engan snjó að sjá hér í Reykjavík þrátt fyrir talsverðar vetrarhörkur.
Ég man tímann þegar var eiginlega alltaf snjór á þessum tíma, fólk lenti í hrakningum á gamlárskvöld og þegar leið fram í janúar lagðist skólahald jafnvel niður dag og dag.
Getur einhver skýrt út fyrir mér af hverju er eiginlega hætt að snjóa hér suðvestanlands – á sama tíma og fólk í Evrópu er að upplifa afar kaldan vetur?