Jón Steinsson hagfræðingur skrifar pistil á Pressuna um rök með og á móti einkavæðingu. Jón nefnir meðal annars að sporin hræði varðandi einkavæðingu á Íslandi:
„Ég kann illa við tilfinningarök og gamaldags forræðishyggju. Þess vegna ætla ég að ganga út frá því að markmið okkar eigi að vera að hámarka arð þjóðarinnar af auðlindinni. Frá slíku arðsemissjónarmiði eru helst tvenn rök gegn einkavæðingu. Í fyrsta lagi er ekki víst að við treystum stjórnvöldum til þess að semja við einkaaðila um sölu auðlindanna. Ef stjórnvöld halda illa á spilunum við samningaborðið – hvort sem það er vegna vankunnáttu eða spillingar – fær þjóðin ekki sannvirði fyrir auðlindina.
Hver er reynsla okkar Íslendingar af samningum ríkisins við einkaaðila? Nú hefur loksins verið upplýst að Landsvirkjun hefur árum saman selt erlendum álrisum orku á verði sem hefur verið um 20% undir meðalverði á heimsmarkaði. Flestum er í dag ljóst að miklar brotalamir voru á söluferlinu þegar FBA, Landsbankinn og Búnaðarbankinn voru einkavæddir fyrir áratug, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Og ekki skánar það þegar horft er lengra aftur í tímann (Skýrr, Kögun, Síldarverksmiðjur Ríkisins, o.sv.fr.). Er nema von að stór hluti þjóðarinnar sé andsnúinn einkavæðingu eftir það sem á undan er gengið? Því miður hafa Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn nánast eyðilagt einkavæðingu sem hagstjórnartæki á Íslandi.„