Leon Russell varð heimsfrægur þegar hann kom fram á Bangla Desh tónleikunum árið 1971 með George Harrison. Áður hafði hann meðal annars verið tónlistarstjóri í frægri hljómleikaferð Joe Cocker og vina hans undir heitinu Mad Dogs & Englishmen. Hann var líka vinsæll stúdíómaður og spilaði með Dylan, Clapton og Rolling Stones. Svo gaf Russell út nokkrar plötur sem urðu vinsælar, þar var meðal annars að finna þetta fína lag, A Song for You. Annars er Russell enn að, orðinn mjög gráhærður og gráskeggjaður, 68 ára gamall.
[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=37dw2r45Xzg]
Fleiri hafa hljóðritað þetta lag, til dæmis er útgáfa Ray Charles mjög flott. Leon hefur samið fleiri fræg lög, til að mynda Superstar sem Rita Coolidge flutti á Mad Dogs & Englishmen – það var sagt að Leon hafi verið ástfanginn af Ritu sem var mikil femme fatale þess tíma, átti í sambandi við Stephen Stills og Graham Nash, en varð seinna eiginkona Kris Kristofferson. Lagið varð svo frægast í meðförum dúettsins The Carpenters.
[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=SWkOryYF6CI]
Carpenters var öldungis frábær sveit, poppsmellir þeirra systkinanna eru legíó, en því miður dó Karen Carpenter fyrir aldur fram úr lystarstoli. Karen hafði ekki bara einstaklega seiðandi söngrödd, heldur var hún líka mjög flinkur trommuleikari eins og sjá má hér. Það má líka sjá myndunum hvað hún hefur haft gaman af því að tromma. Og það eru heldur ekki allir sem leika það eftir að spila á trommur og syngja af slíkri list.
[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=6dJUnh6N8-U]