Það er sjálfsagt að þýða skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á ensku. Eins og Þorvaldur Gylfason bendir á hafa aðilar í útlöndum orðið fyrir tjóni sem nemur fimmfaldri landsframleiðslu Íslands vegna bankahrunsins.
Hitt er ekki rétt að skýrslan sé gleymd og grafin eins og margir virðast telja.
Það er starfandi þingmannanefnd sem fjallar um rannsóknarskýrsluna og á að draga ályktanir af henni. Þessi nefnd á að skila af sér í lok september. Þá má búast við miklum umræðum um skýrsluna á nýjan leik. Þetta ætti að vera stóra málið á haustþingi.
Einnig var skipuð sérfræðinganefnd undir formennsku Gunnars Helga Kristinssonar prófessors sem átti að fara yfir þá þætti sem lúta að stjórnsýslunni.
Efni rannsóknarskýrslunnar hlýtur líka að vera til hliðsjónar við á við samningu nýrrar stjórnarskrár.
Þannig að skýrslan lifir enn – þrátt fyrir að sumum væri ábyggilega hugnanlegt að hún týndist eða að umræðan um hana ruglaðist endanlega.