Barack Obama ætlar að styðja ákvörðun um að byggja íslamska menningarmiðstöð og mosku nálægt staðnum þar sem World Trade Center stóð í New York. Michael Bloomberg, borgarstjóri í New York, hefur líka veitt málinu stuðning.
Byggingin verður nokkur hundruð metra frá því sem er kallað ground zero og verður reist að frumkvæði samtaka sem nefnast Cordoba-átakið, en þau vilja bæta samskipti Vesturlanda og múslimaríkja.
Froðufellandi hægrimenn eins og Newt Gingrich og Sarah Palin eru á móti þessu. Gingrich segir að þarna sé dæmi um íslamska sigurgleði, en Palin segir að þetta sé „rýtingsstunga í hjörtu fjölskylda þeirra“ sem fóru í árásinni á Tvíburaturnana.
Tugir múslima létu lífið í árásinni 11. september 2001 – og þá er ekki átt við hina afvegaleiddu hryðjuverkamenn sem flugu flugvélunum inn í turnana.
Obama sýnir heilindi og kjark með yfirlýsingu sinni og segir að það ríki trúfrelsi í Bandaríkjunum og að málstaður Al Quaeda sé ekki íslam.